131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Viðræður utanríksráðherra Íslands og Bandaríkjanna.

[15:18]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Það vakti líka athygli að ekkert hefur verið haft opinberlega eftir Powell um fundinn í Bandaríkjunum og ekki verið gefin út nein sameiginleg fréttatilkynning, sem er öðruvísi en þegar fundur átti sér stað með Bush forseta. Það hefur verið afskaplega lítil umræða um þessi mál á Alþingi. Ég hef áður í þessum stól talað um skort á samráði bæði við Alþingi og eins við sveitarstjórnir á Suðurnesjum, því við höfum horft upp á að það er einhliða niðurskurður hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli þó við séum með varnarsamning við Bandaríkin um þá starfsemi sem þar fer fram. Sá niðurskurður fer fram í gegnum fjárlög Bandaríkjanna þar sem dregið er úr fjárframlögum til stöðvarinnar og þeir sem þar stýra eiga engan annan kost en að draga verulega úr starfseminni. Engar viðræður eiga sér stað um það, að því er virðist. Íslensk stjórnvöld hljóta að þurfa að koma betur að því máli en verið hefur.