131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Svæðalokun á grunnslóð.

[15:23]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þann 10. nóvember sl. kvaddi ég mér hljóðs um störf þingsins til að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra út í mjög svo umdeilda svæðalokun á grunnslóð í sunnanverðum Breiðafirði. Þar er búið að loka mjög stóru svæði allt frá Gufuskálum í vestri til mynnis Hvammsfjarðar í austri. Lokunin vakti mjög hörð viðbrögð hjá fólki sem býr á norðanverðu Snæfellsnesi, talað var um að atvinnuöryggi 100–200 manna væri ógnað.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði þá í svari sínu — nú eru liðnir tólf dagar síðan það svar var gefið í sal hins háa Alþingis — eitthvað á þá leið að verið væri að skoða málið og sennilega mundi eitthvað liggja fyrir eftir helgi. Ný ákvörðun um hina mjög svo umdeildu svæðalokun yrði þá tekin í ljósi upplýsinga sem hæstv. ráðherra hefði þá vonandi undir höndum.

Nú eru liðnir ansi margir dagar og ekki að sjá að neitt sé að gerast í málinu, alla vega ekki frá hendi stjórnvalda. Hins vegar hafa sjómenn við sunnanverðan Breiðafjörð tekið sig til og látið framkvæma aldursgreiningar á fiski sem veiðst hefur á svæðinu. Þar hefur komið í ljós með óyggjandi hætti, alla vega eru mjög sterkar vísbendingar um að þarna sé á ferðinni nokkuð gamall fiskur miðað við lengd, fiskur fjögurra, fimm ára og eldri.

Ég vil því spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra að því hvort þess sé að vænta á næstunni að einhver ákvörðun verði tekin í málinu, að þetta mjög svo víðfeðma svæði verði aftur opnað fyrir veiðum þannig að menn geti farið að róa og aflað sjálfum sér og sínum lífsviðurværis með þeim hætti sem þeir hafa gert frá örófi alda.