131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Svæðalokun á grunnslóð.

[15:29]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég er alls ekkert óvanur því að vera ósammála hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni og líður ekkert illa með það, sérstaklega ef málflutningurinn byggist á því að koma með tilvitnun 20 ár aftur í tímann, og svo þegar hann kemur upp í andsvar fer hann 49 ár aftur í tímann til að bera tölurnar saman. (Gripið fram í.) Já, ég kann þessar tölur ágætlega en þegar verið er að tala um 20 ár aftur í tímann tölum við um það en vitnum ekki í árið 1955.

Hvað varðar aðra stofna sem hann nefndi hafa þeir ekki fengið þær sömu einkunnir og okkar stofn hefur fengið. Stofninn í Barentshafi hefur sveiflast mun meira en stofninn í kringum Ísland á því tímabili sem um hefur verið að ræða og færeysk stjórnvöld hafa fengið viðvaranir hvað eftir annað frá Alþjóðahafrannsóknastofnuninni um stöðu þorsksins við Færeyjar þótt vissulega hafi veiðst vel enda vitum við líka að það er ekki alltaf beint samræmi á milli þess hvernig veiðist og hver staða stofnanna er.