131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Viðræður um skiptingu tekjustofna ríkis og sveitarfélaga.

[15:36]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það veit ekki á gott hvernig hæstv. fjármálaráðherra talar. Ég minni á að hæstv. ráðherra er að svara spurningum á Alþingi. Ég held að það hljóti að vera rétt og skylt að Alþingi beiti sér í þessu máli. Það er væntanlega ekkert einkamál hæstv. fjármálaráðherra úti í bæ hvernig farið er með tekjuleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Fram undan er fundur í þessari viðræðunefnd, á miðvikudaginn ef ég veit rétt, og síðan er aukalandsþing Sambands sveitarfélaga á laugardaginn. Það væri ákaflega æskilegt að eitthvað lægi fyrir um það með hvaða hætti hæstv. fjármálaráðherra ætlar að nesta embættismenn sína inn í þetta mál á næstu dögum. Það þýðir ekkert að vísa í innihaldslausa viljayfirlýsingu frá því í haust sem var gerð til að bjarga þessum viðræðum frá strandi. Þá voru sveitarstjórnarmenn gjörsamlega að gefast upp á þessum samskiptum. Þá hafði ekki verið fundað síðan í apríl. Það er greinilegt af viðbrögðum hæstv. fjármálaráðherra hér að engrar afstöðubreytingar er að vænta þar. Það er þvælst fyrir málinu og þessu öllu saman drepið á dreif. Það er mjög ámælisvert, herra forseti.