131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[15:39]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þá er komið að lokum 2. umr. um fjáraukalög fyrir árið 2004. Enn á ný verðum við vitni að því að áætlanir eru ekki sterkasta hlið ríkisstjórnarmeirihlutans í fjárlagagerð. Meira að segja blasir við að misjafnar reglur gilda gagnvart stofnunum ríkisins og jafnvel innan sama ráðuneytis, og það eru miklar líkur á því, herra forseti, að við fáum að sjá aðra mynd þegar ríkisreikningur ársins 2004 verður lagður fram.

Enn á ný kvikna ýmsar spurningar um það hvort allt það sem er í þessu frumvarpi standist lög um fjárreiður ríkisins. Við stöndum frammi fyrir gjörðum hlut með það sem í þessu frumvarpi er, og þess vegna er ábyrgðin algjörlega hjá ríkisstjórnarmeirihlutanum. Þingflokkur Samfylkingarinnar mun þar af leiðandi sitja hjá við allar breytingartillögur meiri hlutans.