131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:20]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að það er sami kostnaður sem býr að baki þessari hækkun og verið hefur (Gripið fram í.) að baki skrásetningargjaldinu fram til þessa. Hér er ekki um skólagjöld að ræða, þá umræðu getum við tekið síðar, en hér er einfaldlega sú breyting höfð á að verið er að draga fram svart á hvítu þann raunkostnað sem stendur á bak við (SigurjÞ: Hvers vegna ekki 25%?) hækkunina á skráningargjaldinu og að sjálfsögðu komum við til með að styðjast við þær tölur sem koma frá Háskóla Íslands og öðrum ríkisháskólum. Ég leyfi mér ekki að efast um þær tölur sem þeir góðu háskólar leggja fram, að sjálfsögðu styðst maður við þær tölur að meginstefnu til. Og ég undirstrika að hv. menntamálanefnd hefur síðan tækifæri til að fara lið fyrir lið ofan í kostnaðarliðina. En ég ber traust til háskólanna.