131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:21]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hér er um að ræða er 40% hækkun á skólagjöld við Háskóla Íslands. Forsendurnar á bak við það sem hér er kallað skráningargjald er skrípaleikur. Það er leikur að orðum. Það er leikur að forsendum þangað til upphæðin er fengin. Allt rammast það ljómandi vel inn í því að allir skólarnir þrír lenda á nákvæmlega sömu krónutölunni þegar búið er að leika sér að tölunum í Excel og forsendunum þangað til nákvæmlega sama upphæð er fengin. Hér er um að ræða almenna tekjuöflun háskólanna þriggja vegna fjársveltis ríkisvaldsins í garð skólanna. Verið er að velta rekstrarkostnaði og rekstrarvanda skólanna yfir á nemendur án þess að nokkurn tímann hafi verið tekin um það umræða í þingsölum að verið sé að taka upp skólagjöld á grunnnám í Háskóla Íslands.

Með þessu lagafrumvarpi, verði það að lögum, er í raun og sanni verið að taka upp skólagjöld á grunnnám í Háskóla Íslands án þess að því fylgi nokkur einasta pólitísk umræða eða opinber ákvörðunartaka um það. Þetta er feluleikur og þetta er skrípaleikur, virðulegi forseti. Þessu verður að fylgja pólitísk umræða á almennari grunni. Vanda skólanna, fjársveltinu og rekstrarvandanum, á ekki að velta yfir á nemendur með þessum hætti. Þess má geta að ekki er lánað fyrir þessum skólagjöldum, vegna þess að í reglum lánasjóðsins nú er skrásetningargjaldið eins og það heitir en er náttúrlega ekkert annað en hrein og klár og skólagjöld, ekki lánshæft. Hæstv. menntamálaráðherra hlýtur að svara því hér hvort hún ætli að beita sér fyrir því að skólagjöldin við ríkisháskólana þrjá verði lánshæf hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og af hverju ekki sé tekið af skarið og það játað hér hreinskilnislega að gamla baráttumálið fyrir skólagjöldum í grunnnámi ríkisháskólanna sé loksins í höfn.