131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:23]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var vel æfð ræða en hún var afar þvæld, og mjög þvæld því hér er ekki um skólagjöld að ræða og við vitum það og hv. þingmaður á að vita að Lánasjóður íslenskra námsmanna lánar fyrir skólagjöldum. Hér er um skráningargjald að ræða, gjald sem var samþykkt á hinu háa Alþingi, viðurkennt af þingheimi að hægt væri að leggja á í Háskóla Íslands vegna útlagðs kostnaðar háskólans sem tengist skrásetningunni og skráningunni. Þetta var sett í lög árið 1991. Og ef við miðum við það verðlag sem þá var má í rauninni segja að raunkostnaðarhækkunin vegna þessarar skráningar sé u.þ.b. 20%, enda hefur þjónusta háskólans aukist til muna frá árinu 1991, og allir vita að umfang háskólans og háskólastigsins hefur þanist út vegna hinnar miklu menntasóknar í háskólakerfið og allt háskólasamfélagið á undanförnum árum. Að sjálfsögðu vilja háskólarnir þá bjóða upp á þjónustu sem nemendur m.a. fara fram á, eðli málsins samkvæmt. En mér finnst óeðlilegt að háskólarnir taki á sig þann kostnað sem hlýst af skráningunni til að mynda af kennslukostnaðinum eða rannsóknarkostnaðnum. Hér er um raunkostnað að ræða vegna skráningarinnar og ekkert annað. Ekki skólagjöld, engan veginn.