131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:25]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Raunkostnaður við skráningu, segir hæstv. ráðherra og heldur því fram að ekki sé um skrípaleik, orðaleik og feluleik að ræða, því hér sé um að ræða upptöku hreinna og klárra skólagjalda. Hvað hafa framlög til samtaka og stofnana stúdenta með skráningu stúdenta að gera, hæstv. ráðherra? Hvað hefur aðgangur að bókasafni og lesaðstöðu með skráningu stúdenta við ríkisháskólana að gera? Hvað hefur aðgangur að prenturum og prentarakostnaður með skrásetningargjöld í háskólana þrjá að gera? Og svo mætti lengi telja, því þegar forsendurnar fyrir þessari skólagjaldatöku á grunnnám í ríkisháskólunum þremur eru lesnar þá afhjúpast skrípaleikurinn og feluleikurinn með svo afgerandi hætti. Hvernig vill hæstv. ráðherra halda því fram að hér sé um raunkostnað við skráningu að ræða þegar svo ítarlega er talið upp allt annað sem er inni í þessum tölum?