131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:27]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vonast til þess að hæstv. menntamálaráðherra svari spurningunum en láti sér ekki nægja að segja ekki orð af viti í svolitla stund þangað til henni líður betur.

Það sem mig fýsir að vita er hvernig ráðherrann lítur á margnefnd skráningargjöld, hún hefur sagt að þau séu ekki skólagjöld en eru þau þjónustugjald eða eru þau skattur?

Ráðherrann flutti í ræðu sinni langt mál upp úr greinargerðinni til þess að sanna það að hægt sé að setja lög um þessi skráningargjöld. Það eru lög um þau þannig að við efumst ekki beinlínis um það og var kannski óþarft að segja okkur það. Það sem við þráum að vita hér er hvort um er að ræða skatt eða þjónustugjöld vegna þess að ef þetta er skattur þá skýrist það að sama upphæð er í öllum skólunum þó að þeir séu misstórir og skráning og sú þjónusta sem reidd er fram kosti væntanlega mismikið. Ef þetta er þjónustugjald vantar hins vegar af hverju þjónustugjaldið er jafnt yfir alla skólana. Þeir hafa á aðdáunarverðan hátt komist mjög nærri þeirri tölu sem hér er nefnd af einhverjum ástæðum, 45 þúsund, en þó er munur á. Í einum háskólanum er gert ráð fyrir að kostnaðurinn við þjónustuna sé 48.494 kr., í öðrum að hann sé 45.987 kr. og í þeim þriðja að hann sé 45.181 kr.

Nú bið ég, forseti, hæstv. menntamálaráðherra að svara okkur — það er ekki spurning um það hvort setja má lög um þetta eða ekki, ekki að sinni, það ræðum við í menntamálanefnd — hvort hún telur þetta vera skatt eða þjónustugjald. Einföld spurning: Skattur eða þjónustugjald?