131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:29]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Með von um að hv. þingmenn og hv. þm. Mörður Árnason skilji mig, eða reyni a.m.k. að skilja það sem ég hef verið að segja, auðvitað skiptir máli að menn fari að lögum. Það er að mínu mati tilgangurinn með framlagningu þessa frumvarps, að draga fram hver hinn raunverulegi kostnaður við skráningu í skólunum er hverju sinni, og það er mjög mikið til framfara. Það er verið að reyna að gera stjórnsýsluna gegnsæja og skilvirka. Slíkt hefði einhvern tíma verið álitið fagnaðarefni, en ekki tilefni til að koma í ræðupúlt og nöldra.

Ég vil undirstrika það sem ég hef sagt áður að engir nýir kostnaðarliðir hafa bæst við hjá nokkrum háskóla, en það má segja að nú sé raunkostnaður vegna þessara kostnaðarliða skrásettur mjög nákvæmlega og skilgreindur í fyrsta skipti, eins og ég gat um áðan. Ég hefði talið að menn mundu fagna því sérstaklega.

Ég vil þá líka spyrja: Til hvers var Alþingi að samþykkja lög um skráningargjald árið 1998? Að sjálfsögðu út af því að einhver grundvöllur þurfti að vera til þess að heimila það. Það var ekki bara samþykkt og átti síðan að vera einhver slumpaðferð. Það hljóta að vera röksemdir á bak við lagaheimildina til að taka skráningargjald. Og það er bara allt önnur Ella en það sem heitir skólagjöld. Þá umræðu getum við tekið síðar, en ég tel að við verðum að koma til móts við ósk ríkisháskólanna um að hækka skráningargjaldið og hækkunin mun renna óskipt inn í blómlegt starf ríkisháskólanna.