131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:44]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Já, nú sýnir Sjálfstæðisflokkurinn sitt rétta andlit, þegar komin eru fram þrjú frumvörp sem gera ráð fyrir hækkun á skráningargjaldi í háskólana, opinberu háskólana. Ég verð að segja að málflutningur hæstv. menntamálaráðherra er afar ótrúverðugur í þessu máli — afar ótrúverðugur. Hún hefur ekki getað svarað þeirri einföldu spurningu sem hv. þingmenn hafa lagt fyrir hana hvort hér sé um þjónustugjald eða skatt að ræða. Ekki hefur hún heldur getað komið til móts við þær spurningar sem voru lagðar fram úr þessum ræðustóli í þessum sal árið 1995 og 1996, þegar þetta skráningargjald var upphaflega fest, með tölunni 24 þús. kr., í lög um háskóla. Þá var þessu skráningargjaldi mótmælt á háværan hátt af stjórnarandstöðuflokkunum. Auðvitað er því mótmælt áfram af stjórnarandstöðunni á Alþingi, vegna þess að hér er verið að fara á skjön við þau meginsjónarmið að nám í háskólum sem reknir eru af opinberu fé skuli vera gjaldfrjálst. Hvers vegna? Vegna þess að það á að ríkja jafnrétti til náms á Íslandi. Þegar stjórnvöld í menntamálaráðuneytinu — en því hefur verið stýrt af Sjálfstæðisflokkunum allt of lengi — reyna að halda því fram að hér sé einungis um skráningargjöld að ræða og verið sé að reikna einhvern raunkostnað þá verður allur sá málflutningur afar, afar holur að innan.

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur sent frá sér nákvæma yfirlýsingu um hvernig reikningskúnstunum, talnakúnstunum er beitt til þess að fá út niðurstöðutöluna 45 þús. kr. Stúdentaráð Háskóla Íslands er ekki að spara hæstv. ráðherra gagnrýniorðin í greinargerð sinni. Greinargerðin er upp á einar sjö síður og hefur verið send til fjölmiðla og þingmanna í dag. Þar segir stúdentaráð fullum fetum að verið sé að setja á aukið skráningargjald sem eingöngu eigi að nota sem almennt tekjuöflunartæki fyrir háskólana og tekur þar af leiðandi undir orð stjórnarandstöðunnar að um feluleik sé að ræða, skrípaleik og dulbúið skólagjald.

Í greinargerð hæstv. ráðherra með frumvarpinu segir að hækkunin sé í samræmi við óskir ríkisháskólanna. Hæstv. forseti, ég segi: Heyr á endemi, því hver er það sem hefur komið ríkisháskólunum á kné vegna fjárskorts? Það er hæstv. menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, hvaða nafni sem hann hefur heitið undanfarin ár, því að árvisst hefur það gerst síðan sú sem hér stendur settist á Alþingi, að yfirvöld háskólans hafa komið á fundi fjárlaganefndar eða menntamálanefndar Alþingis og kvartað undan framgangi stjórnarliðanna, ríkisstjórnarinnar í fjárlagafrumvarpinu þar sem aldrei hefur verið gert ráð fyrir því að eðlileg hækkun fjárframlaga til háskólanna nái fram að ganga. Aldrei er reiknað rétt hvað varðar launastiku háskólanna og aldrei er reiknað rétt hvað varðar nemendafjölgun háskólanna.

Svo stæra sömu stjórnvöld sig af því að aldrei hafi verið settir meiri peningar til menntamála, sérstaklega til háskólastigsins, en einmitt nú. Þá spyr maður sig, virðulegi forseti: Í hverju eru þau hækkuðu fjárframlög fólgin? Þau eru ekki fólgin í hækkun fjárframlaga til hinna opinberu háskóla. (Menntmrh.: Það er rangt.) Þau eru hins vegar fólgin í hækkunum til sjálfseignarstofnana, til þeirra aðila sem upp á sitt eindæmi hafa ákveðið að setja upp háskólastofnanir og stjórnvöld hafa vissulega komið myndarlega að framlagi til slíkra stofnana. Það er auðvitað fyrst og fremst þar sem hækkunina á fjárframlögum til háskólastigsins er að finna en ekki í hækkuðum fjárframlögum til hinna opinberu háskóla. Það er sannleikurinn í málinu.

Það er eðlilegt að hæstv. ráðherra svari fyrir þetta. Hún hrópaði fram í að fullyrðingar mínar væru rangar. Hún svarar því þá vonandi í ræðu sinni á eftir á hvern hátt hún sér þetta öðruvísi en ég.

En það er alveg ljóst, virðulegur forseti, að hinir opinberu háskólar eru ekki að biðja um hækkun á skráningargjaldi háskólanna nema vegna þess að þetta sama ríkisvald, þessi sama ríkisstjórn hefur svelt háskólana og ekki komið til móts við fjárþörf þeirra á undanförnum árum.

Svo segir í greinargerð hæstv. ráðherra með frumvarpinu að ekki sé gert ráð fyrir því í forsendum fjárlagafrumvarpsins að innheimta gjaldanna komi til frádráttar fjárveitingum til ríkisháskólanna á fjárlögum. Ég segir aftur, herra forseti: Heyr á endemi og þakka skyldi þeim. Ég spyr: Datt þeim það í hug? Datt ríkisstjórninni í hug að setja skráningargjöldin í mínus og draga þau frá öðrum framlögum til háskólanna? Bara að leyfa sér að hugsa slíka hugsun segir meira en mörg orð um afstöðu stjórnvalda, núverandi ríkisstjórnar, til hinna opinberu háskóla.

Hæstv. forseti. Í greinargerð og í þessum þremur frumvörpum er tíundað á hvern hátt skráningargjaldið er reiknað og fram hefur komið í ræðum þeirra þingmanna sem talað hafa á undan mér að þar sé um blekkingarleik að ræða, feluleik. Ég ætla að leyfa mér að taka undir þau orð með því að vitna í greinargerð stúdentaráðs Háskóla Íslands vegna fyrirhugaðrar hækkunar, hækkunar sem hefur verið mótmælt hástöfum af stúdentum frá því daginn sem hugmyndin kom fram. Frá því að fjárlagafrumvarpið leit dagsins ljós hefur þeim áformum verið mótmælt og þeim er mótmælt nú og það harðlega og þeim var mótmælt á Alþingi 1996 þegar fjárhæðin 24 þús. kr. var fest í lög um háskóla. Ég ætla að rifja það upp fyrir hæstv. menntamálaráðherra að 25 stjórnarliðar greiddu heildarlögunum atkvæði á vordögum 1996 og 19 stjórnarandstöðuþingmenn voru á móti, fyrst og fremst út af skrásetningargjaldinu. Hæstv. ráðherra skal því ekki tala eins og um þetta hafi einhvern tíma ríkt sátt á hinu háa Alþingi, því það hefur aldrei ríkt sátt um skrásetningargjöld í opinbera háskóla á Alþingi Íslendinga.

Greinargerð stúdentaráðs Háskóla Ísland er næst á dagskrá. Þar segja stúdentar að að þeirra mati hljóti skrásetningargjald, ef það eigi að taka á annað borð, að lúta reglum um þjónustugjöld og gagnrýnisvert sé ef stjórnvöld ætla að nota ákvæðin í lögunum til að innheimta jaðarskatta af námslánum. Síðan er farið í smáatriðum ofan í rökstuðninginn fyrir hækkun skrásetningargjaldsins og sagt að í upphafi hafi háskólayfirvöld sent frá sér yfirlit til menntamálaráðuneytisins yfir þá kostnaðarliði sem þau töldu að réttlættu hækkun gjaldsins og, nota bene, ég fullyrði að yfirlitið sem háskólanum hefur verið gert að senda til stjórnvalda hefur komið að beiðni stjórnvalda. Stjórnvöld hafa auðvitað óskað eftir þeirri sundurliðun. Varla hefur það komið að frumkvæði háskólanna að sundurliða þennan kostnað allan. Ef ég hef rangt fyrir mér geri ég ráð fyrir að hæstv. menntamálaráðherra leiðrétti það á eftir.

En sannleikurinn virðist vera sá, út frá þeim upplýsingum sem stúdentaráð Háskóla Íslands hefur, að yfirliti háskólanna hafi verið gerbreytt eftir að það var sent frá þeim. Ákveðin dæmi eru nefnd. Til dæmis hafi í upphaflegu samantektinni frá Háskóla Íslands verið tilgreind atriði til þess að rökstyðja hækkunina eins og þau að hluti hafi átt að fara í rekstur íþróttahúss skólans sem ætti þá að tengjast skrásetningu nemenda. Hæstv. menntamálaráðherra virðist ekki hafa samþykkt það enda er ekkert um íþróttahúsið eða hlut þess í gjaldinu í frumvarpinu á þskj. 394 í dag.

Sömuleiðis gera stúdentar það uppskátt að í upphaflegu yfirliti frá Háskóla Íslands hafi átt að rukka fyrir útgáfu stúdentaskírteina sem hafi verið talin kosta 600 kr. á hvern nemanda við skólann samkvæmt samantekt háskólayfirvalda, en svo er bent á að hætt sé að gefa út þessi skírteini. Stúdentar benda okkur því á að það sé meira en lítið pottur brotinn í samsetningu kostnaðarliðanna sem taldir eiga að vera á bak við 45 þús. kr. kostnaðinn.

Ef þetta er rétt, hæstv. forseti, að verið sé að dulbúa kostnaðinn og færa hann undir þessa óskuðu upphæð, 45 þús. kr., er það auðvitað grafalvarlegt mál. Þess vegna er ekki óeðlilegt þó þingmenn gangi harkalega að ráðherranum og spyrji: Er þetta þjónustugjald eða skattur? Eru þetta skólagjöld eða hvað er þetta? Hæstv. ráðherra hlýtur að verða að svara gagnrýni stúdenta sem lýtur að fleiri liðum en þeim sem ég hef nefnt. Þeir gagnrýna t.d. lið 1 í frumvarpinu á þskj. 394 þar sem fjallað er um skráningu stúdenta í námskeið og próf. Þeir gagnrýna skipulag kennslu og prófa og framlög til samtaka og stofnana stúdenta. Þar kemur fram að samkvæmt skýrum ummælum í greinargerð sé skráningargjaldinu ekki ætlað að standa undir kostnaði við þá þjónustu sem stúdentaráð Háskóla Íslands veitir, en það er þjónusta sem veitt hefur verið samkvæmt samningi milli Háskóla Íslands og stúdentaráðs hingað til.

Einnig gagnrýna stúdentar skrifstofu kennslusviðs. Þeir gagnrýna aðgöngu að bókasafni og lestraraðstöðu og koma inn á lokun Þjóðarbókhlöðunnar en það má vel rifja það upp, virðulegur forseti, að árið 2003 fékk Háskóli Íslands samkvæmt rammasamningi 14 millj. kr. sem runnu til kvöldopnunar Þjóðarbókhlöðunnar. Fyrirkomulaginu mun hins vegar hafa verið breytt og upphæðin farin að renna beint til skólans í stað þess að hún sé sérstaklega ætluð kvöldopnun safnsins. Svo kunnum við framhaldið á þeirri sögu. Fyrr á þessu ári ákváðu skólayfirvöld að loka Þjóðarbókhlöðunni á kvöldin og nota peningana í aðra hluti. Því var harðlega mótmælt af stúdentum og háskólayfirvöld hafa nú ákveðið að opna safnið aftur á kvöldin. Nú lítur út fyrir að það eigi hins vegar að velta kostnaðinum af kvöldopnun Þjóðarbókhlöðunnar í skráningargjald háskólanna.

Það er náttúrlega alveg forkastanlegt. Stúdentar gagnrýna þetta og þeir gagnrýna líka að hér skuli hluti af kostnaðarliðunum tengjast tölvum og prenturum og segja að hér sé margtalinn hlutur stúdenta af almennum rekstri Reiknistofnunar Háskóla Íslands og slumpað sé á einhverjar prósentutölur án nokkurra útskýringa og gagnrýna þetta harkalega, sérstaklega í ljósi þess að nemendakerfið er orðið rafrænt og rekstur þess og viðhald orðið mun ódýrara en fyrir nokkrum árum. Hér rekist því hvað á annars horn og sé alls ekki hægt að segja að málflutningur hæstv. menntamálaráðherra eða greinargerðin sem fylgir frumvörpunum sé á nokkurn hátt sannfærandi.

Hæstv. forseti. Það er óeðlilegt að hækka skráningargjald í opinbera háskóla um 40% á sama tíma og skráning nemenda er orðin auðveldari, ódýrari, rafrænni og eflaust mannfærri en áður. Tekið skal undir orð stúdenta sem halda því fram að hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins byggi á talnaleikfimi og tilfærslu kostnaðarliða.

Það skal því tekið undir mótmæli stúdenta við þessum hækkunum og ég held því fram í nafni flokks míns, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að vegið sé að grundvallaratriði sem í stefnu okkar felst, þ.e. að fólk skuli hafa jafnan rétt til setu í háskólum burtséð frá efnahag. Ég tala nú ekki um þegar hæstv. ráðherra hefur mjálmað um það hér í ræðustól að skólagjöld séu lánshæf og það eigi ekki að þurfa að koma niður á fólki sem búi við bágan efnahag ber að undirstrika að skráningargjöldin eru ekki lánshæf svo skráningargjöldin koma til með að bitna illa á fólki sem býr við bágan efnahag. Þar af leiðandi er hækkunin sem hér er verið að leggja til ógnun við jafnrétti til náms og hækkun á borð við þá sem hér er lögð til skal aldrei fara auðveldlega í gegnum Alþingi Íslendinga. Það var ekki auðvelt fyrir stjórnvöld að koma þessu í gegn í upphafi, það var ekki auðvelt 1996 og það skal ekki verða auðvelt 2004.