131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:58]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hæstv. ráðherrar hafa fullkomið leyfi til að koma með þau frumvörp sem þeim sýnist inn á þingið á sama hátt og þingmenn hafa leyfi til að flytja þau eða andæfa frumvörpum hver annars eða frumvörpum ráðherrans. Hins vegar verður að gera ráð fyrir því, þó að það sé hvergi beinlínis skráð þá liggur það náttúrlega í anda þess að stofna til þings og umræðunnar um það sem ráðherrar m.a. vilja fá fram, að gera verður ráð fyrir því að ráðherrar alveg eins og þingmenn skýri út ástæður þess að þeir vilja fá frumvörp sín samþykkt.

Það verður að gera ráð fyrir því að ráðherra, sem býr m.a. við það framar einstökum þingmönnum að hafa sérstaka skrifstofu sem til eru ráðnir tugir og jafnvel hundruð sérfræðinga á háum launum, að ráðherrar hafi fyrir því, áður en þeir koma með frumvörp inn í þingið, að raða upp röksemdum fyrir því af hverju frumvörp þeirra skuli samþykkt af þinginu.

Ég veit að hæstv. menntamálaráðherra, sem hefur setið hér lengur en ég, hefur horft upp á að menn kýldu í gegn mál án þess að mæla mjög fyrir þeim, án þess að taka þátt í umræðunum eða skýra það út fyrir þingi eða þjóð hvers vegna málin ættu að fara í gegn. Ég vil hins vegar hvetja hæstv. menntamálaráðherra, vegna þess að hún er að hefja störf sín, til að taka ekki upp þann sið. Það væri ráðherranum sérstaklega ósæmandi að gera vegna þess að menntamálin gera beinlínis ráð fyrir því að menn færi rök fyrir máli sínu. Það liggur í eðli málaflokksins að menn reyni það.

Ég mótmæli þess vegna því að ráðherrann skyldi ekki svara áðan einfaldri spurningu minni um hvað hún álíti, með stuðningi af skrifstofu sinni, öllu menntamálaráðuneytinu, að hér sé um að ræða: Er hér um að ræða skatt eða er hér um að ræða þjónustugjöld? Því ætti að vera tiltölulega einfalt að svara.

Það er ekki nóg að sannfæra okkur á þinginu um að komist verði hjá því að lagafrumvörp þessi séu hrakin af Hæstarétti vegna þess að þau standist ekki stjórnarskrá, eins og hér er reynt að gera. Helsta röksemdin fyrir frumvörpunum sem ráðherra vill fara með í gegn um þingið er að það sé tæknilega unnt og að menn þurfi sum sé ekki að vera hræddir við að þurfa að éta þau ofan í sig aftur. Það er bara ekki næg röksemd. Hæstv. ráðherra á að segja okkur hvers vegna hann flytur mál sitt og hvers eðlis það er. Það er þannig.

Ég reyndi að rekja í andsvari, og ætla að halda því áfram, hvaða rök geta verið á bak við að þetta sé þjónustugjald og hvaða rök geta verið á bak við að þetta sé skattur.

Rök sem benda til þess að hér sé um þjónustugjöld að ræða eru að hæstv. ráðherra tilfærir sérstaklega í máli sínu að stofnað sé til þess gjalds sem innheimt er út frá tilteknum kostnaði af þjónustu. Forseti. Tiltekinn kostnaður af þjónustu bendir til þess að hér sé um að ræða þjónustugjald.

Þegar litið er á tölurnar í greinargerðinni um hvern einstakan skóla er hins vegar fátt sem bendir til að þar sé um að ræða þjónustugjald, tölurnar eru ekki hinar sömu. Þær eru, þannig að ég endurtaki það frá því áðan: við Háskóla Íslands 48.494 kr., við Kennaraháskóla Íslands 45.987 kr. og við Háskólann á Akureyri 45.181 kr. Ef um þjónustugjald væri að ræða mætti ætla að hver skóli innheimti sér upphæð sem næmi tilteknum kostnaði af þjónustu sem veitt er í hverjum skóla.

Raunar eru þessar tölur þannig að um þær er ekki hægt annað en að efast. Það er sérkennilegt að skólarnir hafa komist að því, að því gefnu að þeir hafi reiknað það út hver um sig á sjálfstæðan hátt, hver hinn tiltekni kostnaður af þjónustu er. Þjónustan sjálf hefur reyndar aldrei verið útskýrð nánar og ekki af ráðherra. Það er sérkennilegt að Háskóli Íslands skuli hafa fundið út að kostnaðurinn væri 48.494 kr. hjá sér en Háskólinn á Akureyri skuli hafa fundið út að innheimta þyrfti 45.181 kr. Það er því um 3.200 kr. minni kostnaður í Háskólanum á Akureyri við þessa kostnaðarþjónustu en í Háskóla Íslands. Þó er Háskóli Íslands allnokkuð stærri. Ja, ætli hann sé sextán sinnum stærri? Ég þori ekki að fara með það en hann er sextán til tuttugu sinnum stærri að nemendafjölda en Háskólinn á Akureyri. Af því gerir maður ráð fyrir að ná mætti einhvers konar hagkvæmni stærðarinnar í öllum þeim liðum þar sem ætla má að tiltekinn kostnaður verði af þjónustu sem ráðherrann ræðir svo mjög um.

Það er undarlegt að tölurnar skuli vera svona. Maður hefði gert ráð fyrir að þetta væri á hinn veginn. Maður hefði gert ráð fyrir því að í minnstu skólunum væri mestur kostnaðurinn við skráningu og annað það sem er tiltekið sem kostnaður af þjónustu, en í fjölmennustu skólunum sé því öfugt farið og minnstur kostnaður við þá liði.

Auðvitað bendir allt til þess, forseti, að hér sé eitthvað annað en þjónustugjald á ferðinni. Það bendir ekki til þess að um sé að ræða þjónustugjald þegar fylgiskjölin eru skoðuð, fylgiskjal I. í frumvörpunum þremur. Þá kemur í ljós að gert er ráð fyrir því að nemandi sem skráir sig í skólann fái þjónustu alls staðar í þeim liðum sem tilteknir eru. Það er t.d. gert ráð fyrir því í Háskóla Íslands að allir hafi aðgang að tölvum, prenturum og fleira, að allir hafi sama aðgang að bókasafni og lesaðstöðu og allir þurfi að skipta við alþjóðaskrifstofu. Það er ekki eðli þjónustugjalda. Eðli þjónustugjalda er það að ef maður þarf að skipta við alþjóðaskrifstofu og alþjóðaskrifstofan heimtir þar gjald, þá heimtir hún það af þeim sem skipta við alþjóðaskrifstofuna. Þjónustugjald er þannig og það getur hæstv. menntamálaráðherra lesið um í úrskurði umboðsmanns Alþingis sem hún vitnaði reyndar til áður. Þjónustugjald er þannig að með því borgar maður fyrir þjónustu sem veitt er og nákvæmlega hana, auðvitað að því tilskildu að slíkt gjald sé endurskoðað árlega, að einhverju leyti áætlað o.s.frv. Ef maður fer ekki á alþjóðaskrifstofuna eða einhverja aðra skrifstofu þar sem þjónusta er veitt, þá á maður ekki að þurfa að borga þjónustugjaldið. Það er þannig. Þetta bendir ekki til að hér sé um þjónustugjald að ræða.

Heiti fylgiskjalanna með frumvörpunum eru ekki eins á öllum stöðum. Þar segir ýmist að um sé að ræða „áætlaðan kostnað vegna skrásetningar“. Kostnaður við „þjónustu við stúdenta“ segir á einum stað en vegna „tengdrar þjónustu við nemendur á öðrum stað“. Þetta bendir til þess að höfundar hafi haft ákveðið sjálfræði í vali fyrirsagnar. Þegar háskólarnir skila inn þessu fylgiskjali eru liðirnir ákaflega misjafnir og það skilur maður vel. Þeir eru ákaflega misjafnir vegna þess að það er ekki sami kostnaðurinn í þessum skólum. Þær skrifstofur sem tilheyra Háskóla Íslands eru ef til vill ekki til í öðrum skólum. Sú þjónusta sem samið er um við nemendafélögin, eða látið líta svo út að um hana sé samið við þau, er væntanlega ekki hin sama í öllum þessum skólum. En samt er kostnaðurinn við þjónustuna sem háskólarnir hafa lagt fram hver um sig af fullkomnu sjálfstæði og án nokkurs samráðs, skulum við vona, álíka hár. Er nokkurt samráð í þessu, menntamálaráðherra? Það er ekkert samráð, forseti, menntamálaráðherra hristir höfuðið. Það munar sem sagt á niðurstöðutölunum þessum rúmlega 3.200 kr. Það er allur munurinn á þessu tvennu.

Hins vegar eru mjög mismunandi forsendur á bak við kostnaðinn við þá þjónustu sem til er tekin. Til dæmis er engin velgengnisvika í Háskóla Íslands eða Kennaraháskóla Íslands en hún er í Háskólanum á Akureyri og kostar hvern nemanda 323 kr. nákvæmlega. Maður gæti haldið að það munaði þá þessum 323 kr. milli skólanna en það er ekki þannig því að Háskólinn á Akureyri er ódýrastur að þessu leyti og þar munu nemendur að borga minnst.

„Aðstaða og stjórnun — reiknuð gjöld 12% af liðum 1–9,“ er reiknað í Háskóla Íslands. En slík aðstaða og stjórnunarkostnaður er ekki reiknaður í hinum fylgiskjölunum. Það stenst ekki og má segja að hvað reki sig á annars horn í þessum fylgiskjölum.

Ég verð að segja, úr því að hæstv. menntamálaráðherra eggjaði menn til þess áðan í orðaskiptum við hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, að játast undir hinn akademíska raunveruleik sem hér kemur fram. Hún spurði hvernig hv. þingmanni dytti í hug að halda að eitthvað væri hæpið sem kæmi frá háskólunum. Þá er rétt að ég lýsi því yfir í eitt skipti fyrir öll að þessi fylgiskjöl eru ekki unnin á akademískan hátt. Þessi fylgiskjöl eru greinilega lögð fram eftir pöntun frá menntamálaráðuneytinu. Þau eru ekki þessum þremur háskólum sæmandi og fyrir neðan akademíska virðingu þessara þriggja háskóla. Það er sorglegt að hæstv. menntamálaráðherra skuli kalla fram brot háskólanna þriggja á þeim grunnreglum sem universitas á að fylgja og hefur gert í gegnum aldirnar, að hún skuli sjálf sveigja menn til að niðurlægja virðingu Háskóla Íslands og hinna háskólanna tveggja með því að pína þá til þess að leggja fram þessi heimskulegu og bjánalegu fylgiskjöl sem hér er um að ræða.

Hvers vegna skyldi það svo vera að menntamálaráðherra getur ekki lýst því yfir að hér sé annaðhvort um skatt eða um þjónustugjald að ræða? Getur verið að það sé vegna þess að ef um þjónustugjald væri að ræða þá væri augljóst, samkvæmt öllum réttlætisrökum, að lána ætti fyrir þeim hjá Lánasjóðnum, sem mundi þá þyngja baggann á þeim lið í staðinn fyrir að létta hann? Gæti verið að ef um þjónustugjald væri að ræða þá hefðu nemendur rétt til þess, gagnvart dómstólum, að láta kanna hvern lið sem hér um ræðir og láta bera saman við hina skólana? Þeir hefðu þá jafnvel rétt á að neita að borga þann hluta af þjónustugjaldapakkanum sem þeir nota alls ekki, neita að borga fyrir þjónustu sem þeir aldrei fá. Kann það að vera? Af hverju er þetta ekki skattur, sem allt bendir til að sé reyndin, skólagjöld, eins og hér var rætt um áðan? Af hverju má það ekki heita það hjá hæstv. menntamálaráðherra?

Það kann að vera vegna þess að það sé óþægilegt fyrir menntamálaráðherra og fyrir hæstv. ríkisstjórn sem nú er að lækka skatta eftir að hafa að vísu verið mjög óspör að leggja þá á síðasta ár. Það gæti verið óþægilegt að tala um skattahækkun í áróðursstríðinu innan lands, sem ríkisstjórnin fer nú ansi duglega í, t.d. á blaðamannafundi hæstv. forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar og hæstv. fjármálaráðherra Geirs Haardes þar sem taldar voru upp ýmsar skattalækkanir en gleymdist að geta um að vaxtabætur stórlækka og gleymdist raunar einnig að segja almennilega frá því að barnabótahækkunin kemur ekki fram fyrr en árið 2007. En það er sem kunnugt er kosningaár á Íslandi og auðvelt að lofa á því vori.

Skyldi vera að í áróðursstríðinu innan lands sé ekki heppilegt að kalla þetta skatt heldur þurfi það að fara einhvers staðar á milli, að vera óútskýrð hækkun á þessu sem hvorki má kalla þjónustugjald né skatt? Kynni það líka að vera vegna þess að fjármálaráðherrann roðnar á sínum frægu og löngu ferðum erlendis þegar hann ber saman hina velheppnuðu fjármálastjórn sína við aðrar þjóðir og gumar af því, og þá vilji hann ekki hafa skattprósentuna of háa og vilji hérna megin landsteina reyna að búa til eitthvað annað úr þeim gjöldum og álögum sem hann innheimtir af þjóðinni allri saman eða að hluta? Þetta dettur mér í hug.

Okkur sem vinnum á þinginu, námsmönnum sem þurfa að borga þetta og öðrum áhugamönnum um þetta mál væri greiði gerður með því að hæstv. menntamálaráðherra upplýsti um hina raunverulegu ástæðu þess að hún vill ekki skera úr um það hvað henni sjálfri finnst. Það er ekki verið að spyrja um stóradóm, ekki verið að spyrja um hinn hinsta dag heldur hvað henni sjálfri finnst, stjórnmálamanninum, hæstv. menntamálaráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, um þetta? Er þetta þjónustugjald eða er þetta skattur? Á hún svar við því?

Það kann auðvitað að vera að hæstv. menntamálaráðherra vilji geyma sér hina miklu sókn til skólagjalda og vilji því að þetta teljist ekki skólagjöld þannig að þegar hún fari í þau efni þá verði það glæsileg orrusta sem vinnist undir gunnfánum Sjálfstæðisflokksins, en ekki svona skitirí eins og þetta er. Þetta nemur ekki meira í hundraða milljarða reikningum fjárlaganna en 140 millj. kr., ef mark má taka á greinargerðinni með þessu, sem ég held að megi gera því að það er ekki skrifstofa hæstv. menntamálaráðherra sem kemur með þá tölu heldur fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins, sem ég treysti enn þá betur. Það eru um 140 millj. kr., skitnar, segi ég, í hinum stóru stærðum, sem nú á að rýra kjör námsmanna um án skýringar, án þess að þjóðinni sé gerð grein fyrir því um hvað er að ræða.

Það á að fá 100 millj. kr. út úr nemendum í Háskóla Íslands, 24 millj. kr. út úr nemendum í Kennaraháskóla Íslands og 16 millj. kr. á að fá út úr nemendum í Háskólanum á Akureyri. Það er um þetta sem málið snýst, 140 millj. kr. frá nemendum til einhvers sem kallað er skráningargjald. Hins vegar er ekki er hægt að gera grein fyrir því hvort það er skattur eða þjónustugjald en af orðum menntamálaráðherra má ráða að þar séu alls ekki skólagjöld. Um þetta snýst málið. Leggst nú ekki mikið fyrir kappann, má segja, forseti, um hæstv. menntamálaráðherra. En það má vona og biðja; ora et labora, sögðu þeir Þorlákur helgi og menn í hans munkareglu. Við gerum það og væntum svara frá hæstv. menntamálaráðherra. Enn spyr ég: Er þetta skattur eða er þetta þjónustugjald? Og enn spyr ég: Af hverju þarf þessa hækkun? Hana þarf ekki á grundvelli fylgiskjala frá skólunum með þessum frumvörpum. Þau eru della, samsuða sem hæstv. menntamálaráðherra er ekki sæmandi að koma með inn á þingið og háskólunum ekki sæmandi að láta frá sér fara, jafnvel þótt undir nauðungarþrýstingi sé.