131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[17:16]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það verður að taka undir það með þeim ræðumönnum sem hér hafa talað, öðrum en hæstv. ráðherra að sjálfsögðu, að þetta er ákaflega dapurlegt frumvarp, og dapurlegt hlutskipti fyrir hæstv. menntamálaráðherra á fyrstu metrunum í embætti sínu að þurfa að koma með óbermi af þessu tagi inn í þingið. Þetta frumvarp er neðan við allar hellur. Það snýst um að hækka verulega þau skólagjöld sem komin eru, því miður, í opinberu háskólunum og fundið var upp þetta nafn á á sínum tíma, innritunargjöld eða skráningargjöld. Verra af tvennu eru þó kannski vinnubrögðin í kringum þetta og skrípaleikurinn sem þarna er á ferðinni. Það er alveg yfirgengilegt að skoða fylgiskjölin og sjá þessar æfingar og hundakúnstir í því að reyna að smyrja þessu út á mismunandi liði í skólastarfinu. Mér er alveg nákvæmlega sama hvort á hvað í því, ráðuneytið eða háskólarnir. Það er jafnógeðfellt.

Það er því miður, herra forseti, allt að koma á daginn sem sagt var hér þegar menn hófu þessa vegferð á sínum tíma, í ríkisstjórn krata og Sjálfstæðisflokks, og síðan var því haldið áfram í ríkisstjórn framsóknarmanna með íhaldinu, að tilhneigingin þegar svona gjaldtaka er einu sinni komin á er alltaf sú að reyna að sæta færis og hækka gjaldið. Það er ekkert sem tryggir að eftir 2–3 ár detti mönnum ekki allt í einu í hug að þessi kostnaður hafi verið stórlega vanreiknaður og finni allt í einu út úr því í öllum háskólunum að nú þurfi gjaldið að hækka upp í 89.500, og kannski bara allt í einu í nákvæmlega sömu krónutölu hjá háskólunum þremur. Svona fíflagangur getur auðvitað haldið áfram þegar menn eru einu sinni komnir út á þessa braut.

Til hvers er verið að þessu, herra forseti? Jú, til þess að skrapa saman skitnar 140 millj. kr. í opinberu háskólunum þremur, upp úr vösum námsmanna. Þar hefur ríkisstjórnin fundið matarholurnar, í vösum námsmanna.

Þetta er sama ríkisstjórnin og er svo vel stödd að hún ætlar að gefa jólagjafir og lækka skatta, sérstaklega á hátekjufólkinu í landinu. Þá vantar ekki auðlegðina í búið. En það er ekki hægt að hafa fjárveitingar til þessara háskóla 140 millj. kr. hærri þannig að ekki þurfi að standa í þessu. Sér er nú hver metnaðurinn.

Þetta er upp í veltu opinberu háskólanna upp á samtals liðlega 8 milljarða kr. Háskóli Íslands með 6,1 milljarð, Kennaraháskólinn með 1,3 og Háskólinn á Akureyri með 820 millj. Samtals velta upp á 8,2 milljarða. Upp í þetta á að safna saman heilum 140 millj. kr. — með þessum aðferðum. Menn leggja mikið á sig fyrir lítið, verð ég að segja. Tekur það því fyrir hæstv. menntamálaráðherra að leggja í þennan leiðangur, jafngeðfelldur og hann er, og hafa þrátt fyrir allt ekki meira upp úr krafsinu en þetta?

Nei, þetta er alveg dapurlegt, herra forseti. Það er látið svo heita að þetta sé samkvæmt óskum ríkisháskólanna. Það vantar bara upp á að þeir hafi verið alveg sólgnir í þetta, bara æstir í að fá þetta, er það ekki? Það er bara af kurteisi ekki tekið fram í greinargerð með frumvarpinu en andinn í þessu er sá. Ætli það sé ekki frekar þannig að þetta sé meira í ætt við undirskriftirnar á Kópavogsfundinum, að menn geri þetta grátandi? Auðvitað er alveg vitað að það er búið að þjarma þannig að opinberu háskólunum, svelta þá og fara þannig með þá undanfarin ár að menn eru grátbólgnir og á hnjánum, farnir næstum því að biðja um skólagjöld. Það er rétt. En það vita allir menn nákvæmlega í hvaða samhengi það er.

Það er kannski ekki undir byssukjöftum núna sem menn biðja um þetta eins og á Kópavogsfundinum forðum en það er þá undir svipu sveltistefnunnar undanfarin ár. Þarna er íhaldið á heimavelli. Það kann þetta, herra forseti. Þetta er nákvæmlega sama aðferð og íhaldið notar á sveitarfélögin. Þetta er sama aðferð og menn hafa notað á þau undanfarin ár, að halda þeim í fjársvelti, í fjárhagslegri spennitreyju, þangað til menn fara að selja og einkavæða og grípa til hvers kyns óyndisúrræða. Þetta er eins og þegar fjárvana sveitarfélög, jafnvel meiri hlutar í félagshyggjusveitarfélögum, sitja yfir því að reikna það út hvort þau geti bjargað sér í 2–3 ár með því að selja grunnskólann sinn. Þetta er nákvæmlega það sama. Ég leyfi mér að fullyrða að húmanisti eins og Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, er ekki að biðja um svona lagað að gamni sínu eða vegna þess að það sé sérstaklega í samræmi við hugmyndafræði hans og innstu hjartans hvatir að fara að biðja um skólagjöld eða hækkuð innritunargjöld í Háskóla Íslands. Ætli það sé ekki eitthvað annað á ferðinni þegar búið er að fara þannig með menn, eða þess vegna Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, eða Ólafur Proppé í Kennaraháskólanum?

Ég hef enga trú á því að neinn af þessum mönnum — þó að ég eigi svo sem ekkert með að tala fyrir þeirra hönd segi ég það bara sem skoðun mína af kynnum við þessa sómamenn alla — hafi nokkurn áhuga á því að fara inn á þessa braut með sína skóla. Það er verið að neyða stjórnendur þessara stofnana til þess með alveg sömu aðferðum og er verið að neyða sveitarfélögin út í alls konar óyndisúrræði sem auðvitað leysa engan vanda. Það er handan við hornið að síðan verði skólunum refsað sem nemur því sem þeir taka af nemendum í formi minni fjárveitinga frá ríkinu. Það er að vísu tekið fram af sérstakri kurteisi að þeir fái að halda þessu óskertu í eitt ár. Það liggur alveg fyrir hvað í raun og veru er þarna á ferðinni og hvers menn mega vænta í þessum efnum.

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst líka alveg makalaust að Framsóknarflokkurinn skuli fela sig í þessari umræðu. Hvar er Framsóknarflokkurinn? Er hann bara gufaður upp ? Eru þau búin að segja af sér þingsætunum, öll 12? Þau spýttust héðan í burtu, þau fáu sem voru hérna þegar kom að því að umræðan hæfist. Hvar er nú hv. þm. Dagný Jónsdóttir, sem fór ekki svo lítinn í framboðinu til Alþingis 2003, sem gaf sig út fyrir að ætla að verða alveg sérstakur verndari og bjargvættur námsmanna og hagsmunamála þeirra? Hún talaði eins og hún og hennar flokkur bæru enga ábyrgð á stjórnarstefnunni og stjórnarsamstarfinu, talaði eins og hreinn stjórnarandstæðingur í framboði sem væri það algerlega óviðkomandi, allt það slæma sem ríkisstjórnin hafði verið að gera í skólamálunum, þar skyldi heldur betur brotið í blað. Hvar er hv. þingmaður nú? Hún er sennilega á liðsæfingu nema hún sé kannski orðin klappstýra í liðinu fyrir nýjum skólagjöldum.

Nei, þetta er heldur dapurlegt, herra forseti.

Svo vil ég gera sérstakar athugasemdir hér við eitt, og ég leyfi mér að kalla það líka ósmekklegt. Ég verð að vísu að játa að ég hef ekki haft tíma til að kanna þar frumgögn en í þessu frumvarpi er látið að því liggja að þessi aðferðafræði sé með uppáskrift umboðsmanns Alþingis. Það er látið að því liggja að í sjálfu sér sé engin ástæða til að gera greinarmun á sköttum og þjónustugjöldum. Hefur umboðsmaður Alþingis einhvern tímann sagt það? Ég hef mikinn fyrirvara á því, tek það að vísu fram að ég hef ekki haft tíma til að fara nákvæmlega yfir það álit umboðsmanns sem menn skjóta sér þarna á bak við en það ber nýrra við ef umboðsmaður Alþingis vill taka ábyrgð á einhverjum sóðaskap hvað varðar framsetningu af þessu tagi. Ég hef frekar þekkt það embætti fyrir hið gagnstæða, að menn vilji hafa svona hluti mjög á hreinu. Hér er verið að fara, augljóslega, út á mjög grátt svæði hvað varðar það að menn geti bara með einhverjum kúnstum og æfingum látið heita svo að um innritunar- eða þjónustugjöld, eða skrásetningargjöld skulum við segja, sé að ræða og að þau þurfi þá ekki að lúta sömu reglum og þjónustugjöld. Það þurfi ekki að vera beint samhengi á milli þess kostnaðar sem lagður er út og þjónustunnar sem menn þá fá og gjaldtökunnar. Það bara ósköp einfaldlega stenst held ég ekki þegar betur er að gáð. Það væri brot á öllum grundvallarprinsippum í þessum efnum.

Hvaða maður kaupir það að það séu fullnægjandi vísindi fyrir því þegar farið er hér yfir þetta fylgiskjal sem virðist hafa verið byggt eftir geðþótta ráðuneytisins á því sem fengið var frá skólunum og lagfæringum menntamálaráðuneytisins á því þar sem sumt er viðurkennt og öðru hent út, eins og íþróttahúsinu? Það hlaut ekki náð menntamálaráðuneytisins að hluti af rekstrarkostnaði íþróttahússins væri tekinn þarna með sem þjónusta við stúdenta. Mér finnst þá að ég eigi að fara að borga svolítil skólagjöld eða innritunargjöld því ég nota þetta íþróttahús af og til. Þá væri sanngjarnt að ég tæki þátt í einhverjum hluta af rekstrarkostnaðinum þar.

Eða svona snilld eins og það að 30% af rekstri skrifstofu kennslusviðs skuli tilheyra þessum gjöldum. 30%. Af hverju ekki 30,02%? Svo 12% af reiknuðum gjöldum vegna aðstöðu og stjórnunar. 12%. Hver eru vísindin á bak við þetta, hæstv. ráðherra? Þau eru auðvitað ekki til. Þetta er slumpugangur, það sér hver heilvita maður. Sama má segja t.d. um þjónustu alþjóðaskrifstofu o.s.frv.

Í reynd er þetta allt saman kjaftæði þegar betur er að gáð. Hvar í ósköpunum ætla menn að draga mörkin hvað varðar rekstur háskólanna í heild sinni? Allur rekstur háskólanna er í eðli sínu í raun og veru fyrir námsmenn. Ég skil ekki bara hvernig þessi hugsun á að ganga upp ef út í það er farið.

Þegar til kastanna kemur eru það, herra forseti, ekki nafngiftirnar sem skipta máli, heldur upphæðirnar. 45 þús. kr. eru 45 þús. kr. hvað sem þær heita. Það munar um þær. Það munar verulega um þær, ég tala nú ekki um þegar það liggur fyrir að þessi kostnaður er ekki lánshæfur.

Fjárlagaskrifstofan virðist ekki alveg hafa náð þessari hugmyndafræði menntamálaráðuneytisins. Svolítið fyndið að orðalagið á þessari stuttaralegu umsögn fjárlagaskrifstofunnar er ekki beinlínis til að undirbyggja þann málflutning ráðherra að þetta séu allt saman alveg þaulskilgreind þjónustugjöld. Þar stendur bara ósköp einfaldlega:

„Útgjaldaheimild skólans í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2005 byggist á þeirri forsendu að skólinn nýti sér heimildina og afli 100 millj. kr. meiri tekna sem renni óskertar til hans.“

Fjárlagaskrifstofan er ekkert að gera þetta flókið. Þetta eru bara 100 millj. kr. tekjur til Háskóla Íslands. Það er auðvitað það sem það er. Svo geta menn farið í allar þessar æfingar og reynt að skýra þær út og suður og gera bara málið í raun og veru enn þá aumkunarverðara og hlægilegra.

Hvernig ætla menn t.d. að útskýra að það þurfi allt í einu núna, á einu bretti vegna ársins sem í hönd fer, að hækka um 38,5%? Á að gera þetta svona geysilega miklu betur og á þetta að vera svona miklu vandaðra allt á næsta ári og menn að fá svona miklu meiri þjónustu? Eða var halli á þessu í fyrra? Af hverju allt í einu bara núna? 38,5%, það þarf eitthvað að útskýra það.

Hér rekur sig meira og minna eitt á annars horn, herra forseti, og þarf í sjálfu sér ekkert að hafa miklu fleiri orð um það. Mér finnst þó kannski ástæða til að nefna hér einn lið sérstaklega því mér fannst svo dapurlegt að sjá hann hér og það er kostnaðurinn vegna lesaðstöðu í Þjóðarbókhlöðunni og aðgangs að gögnum. Pínulítinn hluta af rekstrarkostnaði Þjóðarbókhlöðunnar á að reikna þarna á námsmenn af því þeir komast inn í Þjóðarbókhlöðuna svona þegar er opið og það eru þarna nokkur borð sem menn geta sest við og lesið. Metnaðurinn er nú ekki meiri en svo að talið er rétt að kría pínulítið af námsmönnum upp í það, þeim sem eru í opinberu háskólunum. Nú vitum við að ýmsir fleiri nota þessa aðstöðu, þar á meðal framhaldsskólanemendur. Þeir eru þar kannski á hrakhólum dálítið. En þeir eru nú að reyna að stelast þarna inn og lesa. Nei, en af því að hægt er að ná til nemendanna í opinberu háskólunum þá skulu þeir borga þetta, a.m.k. þeir í Háskóla Íslands. Ekki er það nú mikill metnaður finnst mér. Ég held menn ættu frekar að vera stoltir af Þjóðarbókhlöðunni og hafa hana opna og nýta hana og hafa það hugarfar við.

Mér finnst þetta allt ákaflega dapurlegt, herra forseti, en auðvitað er þetta, því miður, angi af alveg gríðarlega stóru máli. Þetta er ein af mikilvægu víglínunum í okkar samfélagi, í okkar pólitík. Það er þessi hér af því þetta snýst í grunninn um viðhorf manna til jafnréttis á þessu sviði. Þetta er spurningin um það hvort menn í reynd vilji verja jafnrétti til náms. Svo koma hérna sjálfsagt ræðurnar um að þessi 45 þúsund kall sé svo lágur og hóflegur að hann mismuni nú engum o.s.frv. En menn hafa lagt á þessa braut.

Ég lít á menntun og aðgengi manna að menntun sem mannréttindi. Ég tel að það séu grundvallarmannréttindi að fá að þroska hæfileika sína og menntast í samræmi við efnalega möguleika þess þjóðfélags sem menn búa í. Því eru að sjálfsögðu slík almenn og ytri takmörk sett. En það er þannig í mínum huga að það að menn standi jafnt að vígi gagnvart menntunarmöguleikum í samfélagi er undirstöðujafnréttis- og mannréttindamál. Verkin sýna merkin. Við vitum alveg hvað gerist í þeim þjóðfélögum sem fara inn á braut einkavæðingar í menntakerfinu og taka upp há skólagjöld. Fari menn til Bandaríkjanna og skoði það bara þar. Hvaða möguleika eiga fátækir blökkudrengir sem eru að alast upp í Harlem á því að hljóta góða háskólamenntun í Bandaríkjunum? Enga, nema þeir séu undrabörn í körfubolta og komist inn í gegnum það. Er það inn á þessa braut sem við viljum fara? Ég segi nei.

Það að opinberu háskólarnir séu opnir án fjöldatakmarkana og án skólagjalda er undirstaðan að jafnrétti til náms á háskólastigi. Ástandið er þolanlegt á Íslandi í dag, þó hér séu komnir einkaháskólar með háum skólagjöldum, svo lengi sem valkosturinn er í boði, opinberir háskólar án skólagjalda sem standa mönnum til boða og með allar almennar námsbrautir. Að vísu er að halla undan fæti, t.d. núna ef það á að sameina Tækniháskólann og Háskólann í Reykjavík og færa inn í þá einkareknu stofnun nám sem hvergi annars staðar verður í boði á Íslandi. Þar eru há skólagjöld. Þá er farið að halla undan fæti því það er þá ekki lengur þannig að menn eigi val á milli þess að stunda slíkt nám í opinberum almennum háskóla og einkaskólanum. Þetta eru hornsteinarnir. Það eru opinberu skólarnir og auðvitað Lánasjóður íslenskra námsmanna. Því miður hefur verið sótt að þessu ítrekað og hart af Sjálfstæðisflokknum, undir forustu Sjálfstæðisflokksins, á hugmyndafræðilegum og pólitískum grunni. Það er alveg á hreinu. Dapurlega geðlitlir meðreiðarsveinar, nú í Framsóknarflokknum, tölta götuna á eftir þeim. Það er að vísu fagnaðarefni að hér er kominn einn varaþingmaður sem er látinn afplána viðveruna. (Gripið fram í: Var hérna áðan líka.) Þá biðst ég velvirðingar á því að hafa ekki séð það. Ég hygg nú að hv. þingmaður hafi þá verið í hliðarsal á meðan ég var að tala. En betra er að hann er hingað mættur og kannski fáum við að heyra hér réttlætingu og rök Framsóknarflokksins fyrir því að standa að þessum ósköpum með Sjálfstæðisflokknum ef þessi hv. þingmaður Framsóknarflokksins tekur til máls.

Ég held að það sé ósköp einfalt, herra forseti, hvað eigi að gera við þetta frumvarp. Það á að henda því og þeim sem því fylgja og það á að hækka fjárveitingar til háskólanna um 140 millj. kr. við 2. eða 3. umr. fjárlaga og þó meira hefði verið. Auðvitað er þetta aðeins angi af því að fjárhagsleg málefni þessara stofnana hafa langt frá því verið í nógu góðu lagi. Sjálft stoltið og flaggskipið í byggðaumræðu í landinu, uppbygging Háskólans á Akureyri sem flestir ljúka nú upp einum munni um að hafi verið ákaflega vel heppnuð aðgerð, er nú farin að stanga þök vegna þess að háskólinn getur ekki lengur tekið við öllum nemendum sem þangað leita vegna þess að hann fær ekki fjárveitingar til þess. Þannig að það er farið að bremsa af þá uppbyggingu hvað þá annað.

Okkar gamla góða móðurskip í háskólamenntun í landinu, Háskóli Íslands, er auðvitað grátt leikið og hefur verið um langt árabil. Svipaða sögu má segja um Kennaraháskólann sem auðvitað er gríðarlega mikilvæg stofnun og veitir nú ekki af að sæmilega sé að honum búið og kennurum auðvitað almennt eins og dæmin sanna og ég veit að ég þarf ekki að vísa til.