131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[18:16]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Einmitt vegna þess sem hv. þingmaður lýsir, vegna þeirrar háskólaflóru sem við búum nú við, er þeim mun meiri þörf fyrir það að standa vörð um opinberu háskólana og tryggja að allir sem ekki ætla sér að læra í sjálfseignarstofnunum eigi þá möguleika á að koma til opinberu háskólanna og læra þar. Þess vegna er mjög mikilvægt eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á í ræðu sinni áðan að ekki verði farið inn á þá braut að gera ákveðnar námsbrautir eingöngu opnar þeim sem eru til í að borga há skólagjöld. Það skiptir verulegu máli að hér sé um val að ræða og að íslenskir stúdentar eigi þess kost að læra í opinberu háskólunum án skólagjalda.

Ég held að ég verði að segja það við þessa umræðu, hæstv. forseti, að mér finnst stóll hæstv. forsætisráðherra vera fullháu verði keyptur.