131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[18:45]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er með ólíkindum hvernig hæstv. menntamálaráðherra kveinkar sér yfir alþjóðlegum samanburði sem hún nota bene hrakti ekki í einu einasta atriði. Það er staðreynd og alþjóðlegur samanburður sýnir það að hlutfall Íslendinga varðandi háskólafé er um það bil helmingi lægra en hinar Norðurlandaþjóðirnar verja í sína háskóla.

Það er sömuleiðis staðreynd að um 29% þjóðarinnar á aldursbilinu 25–34 ára hafa lokið háskólanámi á meðan þetta hlutfall er um 40% hjá Norðurlandaþjóðunum. Það er einnig staðreynd að í íslenskum framhaldsskólum er um 30% brottfall á sama tíma og það er um 19% í alþjóðlegum samanburði. Svo talar hæstv. menntamálaráðherra um að þetta hafi allt breyst síðan þessi alþjóðlegi samanburður átti sér stað en þá er einnig hægt að vísa í hennar eigin grein frá 7. febrúar sl. þar sem hún tekur beinlínis fram að fjármagnsaukningin sem fór í Háskóla Íslands nægir ekki einu sinni fyrir nemendafjölguninni á sama tíma. Það er öll menntasóknin.