131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[18:56]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég gerði grein fyrir í stuttu andsvari mínu áðan sýnist mér að nemandi þurfi að þéna 100 þús. kr. til að geta borgað þetta innritunargjald. Þar með er einn þriðji af óskiptum tekjum farinn, ef ég veit rétt. Ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra:

Ef þetta gjald heldur áfram að hækka — menn geta svo rifist um það hvenær það verður skólagjald, hvenær það er innritunargjald eða skrásetningargjald — á næstu árum og kemst kannski upp í það að nemandinn þurfi að setja í það helming þeirrar upphæðar sem hann má þéna án þess að verða fyrir skerðingu á námslánum, eru þar þau mörk þegar ráðherrann telur að rétt væri að leyfa að námslán dekkuðu þessi gjöld? Eða hvar ætlar hún að draga þessa línu? Hvert er í rauninni verið að fara með þessu?