131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[19:22]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að móðga hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, jafnágætur þingmaður og hann er og iðulega nokkuð málefnalegur í málflutningi sínum, það var ekki ætlun mín, hafi hann tekið því þannig að ég nefndi þetta talnaleik. En það hefur mikið verið rætt um tölur og menn notað þær ýmist til að reyna að rökstyðja mál sitt, eða þá til að snúa út úr. En það er ég ekki að segja að hv. þingmaður hafi gert í málflutningi sínum.

Engu að síður tel ég að þær athugasemdir sem hann hefur komið með um málið séu þannig ábendingar að hv. menntamálanefnd eigi að fara vel yfir þær þegar málið er komið til meðferðar hjá henni.