131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[13:35]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Eins og fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er eitt helsta markmið hennar að nýta aukið svigrúm ríkissjóðs til að tryggja aukinn kaupmátt þjóðarinnar með markvissum aðgerðum í skattamálum. Í samræmi við þau áform mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og fleiri lögum. Frumvarpið er mál nr. 351 og er að finna á þskj. 400 en í því eru lagðar til viðamiklar skattkerfisbreytingar sem koma munu til framkvæmda á árunum 2005–2007. Mestu munar þar um almenna lækkun á tekjuskattshlutfalli manna um 4 prósentustig á næstu þremur árum. Afnám 0,6% eignarskatts, jafnt á einstaklinga sem lögaðila, er ekki síður mikilvægur áfangi sem koma mun til framkvæmda á árinu 2006, verði frumvarp þetta að lögum.

Síðast en ekki síst inniheldur frumvarpið tillögur ríkisstjórnarinnar um stóraukinn beinan stuðning við barnafjölskyldur með verulegri hækkun barnabóta auk þess sem áfram er dregið úr tekjutengingu þeirra. Samkvæmt tillögu frumvarpsins koma þessar breytingar á barnabótakerfinu til framkvæmda í tveimur áföngum, þ.e. á árunum 2006 og 2007.

Áætluð áhrif framangreindra breytinga á afkomu ríkissjóðs eru talin geta orðið nálægt 22 milljörðum kr. þegar þær eru allar komnar til framkvæmda að fullu, að teknu tilliti til veltuáhrifa. Þar af eru áætluð áhrif á tekjuhlið ríkissjóðs vegna lækkunar tekjuskattshlutfalls og afnáms eignarskatts tæplega 20 milljarðar kr. að viðbættum 2,4 milljörðum í útgjaldaauka vegna hækkunar barnabóta. Veltuáhrifin birtast í auknum tekjum ríkissjóðs af virðisaukaskatti og öðrum veltusköttum í kjölfar aukins kaupmáttar vegna lækkandi skattbyrði og hærri barnabóta. Gert er ráð fyrir að þau nemi 3,5–4 milljörðum kr. á umræddu tímabili.

Með hliðsjón af horfum í efnahagsmálum og tímasetningu stóriðjuframkvæmda er mikilvægt að dreifa þessum breytingum á umrætt tímabil í því skyni að viðhalda aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum jafnframt því að varðveita efnahagslegan stöðugleika. Af því leiðir að meginþungi tekjuskattslækkunarinnar kemur til framkvæmda á árinu 2007. Þannig eru áætluð áhrif á afkomu ríkissjóðs á komandi ári aðeins um 4 milljarðar kr. og hefur þegar verið gert ráð fyrir því í fjárlagatillögum næsta árs.

Af öðrum tillögum frumvarpsins er rétt að nefna frekari breytingar á greiðslu vaxtabóta í takt við þær umbyltingar sem átt hafa sér stað á innlendum lánamarkaði á undanförnum vikum.

Að lokum er í þessu frumvarpi að finna viðamikla samræmingu á tilvísunum ýmissa laga til núgildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt til samræmis við tillögur frumvarpsins um afnám eignarskatts. Með öðrum orðum felur þetta frumvarp það í sér að í ársbyrjun 2006 verða ekki lengur í gildi hin gamalkunnu lög um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum heldur ný lög undir heitinu Lög um tekjuskatt.

Ég mun nú, virðulegi forseti, gera nánari grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frumvarps.

Sem fyrr segir gerir frumvarpið ráð fyrir 4 prósentustiga lækkun á tekjuskattshlutfalli einstaklinga í þremur áföngum. Fyrsti áfangi kemur til framkvæmda frá og með 1. janúar 2005 þegar staðgreiðsluhlutfall tekjuskatts lækkar um eitt prósentustig. Sú breyting er talin lækka tekjur ríkissjóðs um allt að 4 milljarða kr. á næsta ári eins og áður er fram komið.

Annar áfangi kemur síðan til framkvæmda frá og með 1. janúar 2006 þegar staðgreiðsluhlutfallið lækkar frekar, þ.e. um 1%, og aftur um 2% í þriðja áfanga sem kemur til framkvæmda frá og með 1. janúar 2007.

Í frumvarpinu er einnig mælt fyrir um hækkun á persónuafslætti til næstu þriggja ára í samræmi við umsamdar launahækkanir á almennum vinnumarkaði. Það er hækkun um 3% frá 1. janúar 2005, aftur um 2,5% frá 1. janúar 2006 og loks um 2,25% frá 1. janúar 2007. Samsvarandi hækkun er lögð til á frítekjumörkum barna undir 16 ára aldri. Jafnframt er gerð tillaga um almenna 3% hækkun á viðmiðunarfjárhæðum laganna, svo sem sjómannaafslætti, viðmiðunarfjárhæðum eignarskatts, barnabóta og vaxtabóta sem koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2005.

Þessar breytingar samanlagt, þ.e. 4% lækkun tekjuskatts og 8% hækkun persónuafsláttar, fela í sér 20% hækkun skattleysismarka á tímabilinu. Í dag eru skattleysismörk tekjuskatts að meðtöldu útsvari liðlega 71 þús. kr. á mánuði en verða tæplega 86 þús. kr. í lok tímabilsins miðað við tillögu frumvarpsins og að óbreyttu útsvari. (Gripið fram í: … verðbólga.) Óhætt er að fullyrða að með þessum breytingum er stigið stórt skref í átt til þess að draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins sem í senn lækkar skattbyrði heimilanna verulega og stuðlar að aukinni atvinnuþátttöku og auknu vinnuframboði.

Af sama meiði eru tillögur um verulegar breytingar á barnabótakerfinu sem koma til framkvæmda í tveimur áföngum á árunum 2006 og 2007. Þeim breytingum má í megindráttum skipta í fernt.

Í fyrsta lagi er lagt til að ótekjutengdar barnabætur með börnum yngri en 7 ára hækki um samtals 50% til viðbótar þeim 3% sem gert er ráð fyrir að fjárhæðir þeirra hækki í upphafi næsta árs. Þar af hækki bæturnar um 25% frá ársbyrjun 2006 og síðan aftur um 20% í byrjun árs 2007. Í dag er þessi fjárhæð liðlega 36 þús. kr. á ári með hverju barni yngra en 7 ára en verður 56 þús. kr. frá ársbyrjun 2007.

Í öðru lagi er gerð tillaga um 10% hækkun tekjutengdra barnabóta til viðbótar þeim 3% sem áður voru nefnd og að sú hækkun komi til framkvæmda í ársbyrjun 2006. Samkvæmt gildandi lögum eru tekjutengdar barnabætur misháar eftir hjúskaparstétt og fjölda barna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir ótengdu kerfi og að allar bótafjárhæðir hækki hlutfallslega jafnt. Þannig hækka tekjutengdar barnabætur hjóna eða sambýlisfólks með fyrsta barni úr 123 þús. kr. á ári í 140 þús. kr. frá ársbyrjun 2006. Samsvarandi fjárhæðir fyrir einstætt foreldri færu úr 205 þús. kr. í 232 þús.

Í þriðja lagi er lagt til að viðmiðunarmörk tekna vegna tekjutengdra barnabóta hækki samtals um 50% auk áðurnefndrar 3% hækkunar árið 2005. Þar af hækki viðmiðunarfjárhæðirnar um 25% frá ársbyrjun 2006 og aftur um 20% frá ársbyrjun 2007.

Í dag skerðast tekjutengdar barnabætur þegar við 120 þús. kr. sameiginleg mánaðarlaun hjá hjónum og 60 þús. kr. hjá einstæðum foreldrum. Nái tillögur frumvarpsins fram að ganga verða umræddar tekjuviðmiðanir 168 þús. kr. fyrir hjón og 93 þús. kr. fyrir einstæða foreldra í ársbyrjun 2007.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að skerðingarhlutföll tekjutengdra barnabóta lækki og að sú lækkun komi til framkvæmda á árinu 2007. Lagt er til að við ákvörðun barnabóta lækki skerðingarhlutfall tekna með einu barni úr 3% í 2%, með tveimur börnum úr 7% í 6% og með þremur börnum eða fleiri úr 9% í 8%. Með þessari breytingu er dregið úr jaðaráhrifum barnabótakerfisins. Sem dæmi um áhrif þessara aðgerða má nefna að barnabætur hjóna með tvö börn, þar af annað yngra en 7 ára, með 300 þús. kr. á mánuði samanlagt hækka um 107 þús. kr. á ári, þ.e. tæplega 9 þús. kr. á mánuði. Fyrir einstætt foreldri með 150 þús. kr. á mánuði og tvö börn, annað yngra en 7 ára, nemur hækkunin liðlega 150 þús. kr. á ári, þ.e. 12.500 kr. á mánuði, þegar breytingin verður að fullu komin til framkvæmda á árinu 2007.

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005 er reiknað með að heildargreiðslur barnabóta nemi um 5,4 milljörðum kr. Áætlaður heildarkostnaður ríkissjóðs af framangreindum breytingum á barnabótakerfinu er talinn verða um 2,4 milljarðar kr. þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda. Með öðrum orðum fela tillögur frumvarpsins í sér tæplega helmingshækkun barnabóta frá gildandi lögum og skiptast þær breytingar nokkuð jafnt milli áranna 2006 og 2007.

Þá er í frumvarpinu lagt til að eignarskattur, bæði á einstaklinga og lögaðila, falli niður frá og með árinu 2006. Í dag er eignarskattur 0,6% á nettóeignir einstaklinga umfram 4,8 millj. kr. og tvöfalda þá fjárhæð hjá hjónum. Má reikna með að hann skili um 3,7 milljörðum króna í ríkissjóð á næsta ári. Ljóst er að afnám eignarskatts mun koma sér afar vel fyrir íbúðaeigendur, ekki síst eldra fólk og lífeyrisþega sem búa í lítið skuldsettum íbúðum og greiða þar af leiðandi tiltölulega háa eignarskatta. Sannleikurinn er sá að það er fólk yfir sextugt, komið á efri ár, sem borgar stærstan hluta eignarskattsins. Sé tekið dæmi af íbúð sam samkvæmt fasteignamati er metin á 15 millj. kr. felur afnám eignarskattsins í sér liðlega 60 þús. kr. lækkun á árlegri skattbyrði einstaklings eigi hann íbúðina skuldlausa eða sem svarar 5 þús. kr. á mánuði.

Rétt er að nefna að þrátt fyrir afnám eignarskattsins, samanber tillögu frumvarpsins, er áfram gert ráð fyrir framtalsskyldu eigna og skulda. Framtalsskyldan er m.a. nauðsynleg í ljósi lagareglna um fyrningar og söluhagnað auk þess sem nettóeign, þ.e. eignir að frátöldum skuldum, hefur áhrif á útreikning vaxtabóta. Sem fyrr segir mun breyting þessi ekki hafa áhrif fyrr en á árinu 2006 en frumvarpið gerir ráð fyrir að álagning eingarskatta á nettóeignir einstaklinga og lögaðila í árslok 2004 verði með óbreyttu sniði á næsta ári.

Lauslega áætlað munu þær breytingar sem hér hefur verið lýst og er að finna í þessu frumvarpi, þ.e. lækkun tekjuskatts, hækkun barnabóta og afnám eignarskatts, leiða til 4–5% hækkunar á ráðstöfunartekjum heimilanna í landinu að meðaltali. En vitanlega er það svo að ýmsir hópar, ekki síst tekjulægra barnafólk og barnafólk með millitekjur, mun bera miklu meiri kaupmáttaraukningu úr býtum vegna þessara ráðstafana.

Í frumvarpinu er einnig að finna tvíþætta breytingu á ákvæðum gildandi laga um vaxtabætur. Meginrökin fyrir þeim breytingum er hið mikla umrót sem átt hefur sér stað á innlendum lánamarkaði á undanförnum vikum. Hörð samkeppni ríkir nú um hagstæð vaxtakjör til íbúðareigenda milli aðila á þessum markaði, hvort heldur það er Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðirnir eða viðskiptabankarnir.

Til upprifjunar má nefna að undir lok síðasta árs var samþykkt á Alþingi lækkun á viðmiðunarvöxtum vaxtabóta úr 7% í 5,5% vegna mikillar lækkunar raunvaxta á íbúðalánum. Skyldi sú breyting koma til framkvæmda á árinu 2005. Á þeim tíma voru raunvextir Íbúðalánasjóðs liðlega 5% og vextir lífeyrissjóða nálægt 5,5% að jafnaði. Nú er þetta umhverfi hins vegar gjörbreytt á einungis örfáum vikum sem endurspeglast bæði í lægri raunvöxtum, þ.e. á bilinu 4,2–4,3%, og stórauknum lánamöguleikum fyrir tilstilli viðskiptabankanna. Þessi þróun kallar óhjákvæmilega á aðgerðir af hálfu stjórnvalda í átt til aðlögunar á vaxtabótakerfinu að nýjum veruleika.

Í ljósi þessa er lagt til í þessu frumvarpi að viðmiðunarvextir við útreikning vaxtabóta verði lækkaðir úr 5,5% í 5% sem komi til framkvæmda við ákvörðun vaxtabóta á árinu 2006. Jafnframt er lagt til að ákvarðaðar vaxtabætur á árinu 2005 vegna vaxtagjalda á yfirstandandi ári verði 95% af útreiknuðum vaxtabótum og er það sams konar afgreiðsla og lögfest var í fyrra hvað varðar árið 2004.

Markmiðið með þessum breytingum á vaxtabótakerfinu er að draga að einhverju marki úr hvata til frekari skuldsetningar hjá þeim sem eru að fjárfesta í eigin húsnæði í því mikla umróti sem nú gengur yfir.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um aðrar einstakar breytingar sem er að finna í þessu frumvarpi. Þær snúa flestar að framkvæmd laganna eða lagatæknilegum atriðum eins og samræmingu lagatilvísana eða lagahreinsun. Þó tel ég rétt að nefna tillögu um afnám skattfrelsis hjá innlánsstofnunum með lægri heildarinnlán en 560 millj. kr., en gildandi lagaákvæði er á skjön við almennar jafnræðisreglur gagnvart fyrirtækjum innan sömu atvinnugreinar.

Virðulegi forseti. Frá því að frumvarp þetta var kynnt opinberlega á föstudaginn hafa eðlilega orðið um það töluverðar umræður í þjóðfélaginu, ekki síst í fjölmiðlum. Ýmislegt hefur þar komið fram sem væntanlega verður endurtekið í þeirri umræðu sem nú er að hefjast. Margt hefur þar verið spaklega mælt, annað síður. Ég vil láta þess getið, virðulegi forseti, sem allir þingmenn auðvitað vita, að þetta frumvarp sem ég er nú að mæla fyrir er hluti af löngu ákveðinni stefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur reyndar legið fyrir í eitt og hálft ár. Telji menn að væntingar vegna þessara breytinga, efnahagslegar væntingar hafi neikvæð áhrif á efnahagslífið þá ættu þær þegar að vera fram komnar vegna þess að efnisinnihald frumvarpsins hefur legið fyrir í eitt og hálft ár og stjórnarandstaðan hefur ekki legið á liði sínu nú í haust, t.d. í umræðum um fjárlög og fjáraukalög að finna þessu máli allt til foráttu fyrir fram. Hefur verið ótrúlegt að hlýða á hrakspár stjórnarandstöðunnar þegar verið er að grípa til aðgerða sem munu óumdeilanlega og hvernig sem á málið er litið stórauka kaupmátt almennings.

Ríkisstjórnin hefur áður gert sérstakt átak í að koma til móts við sérstaka hópa í þjóðfélaginu, t.d. aldraða, öryrkja, atvinnulausa og tekjulága, m.a. í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Skattar hafa verið lækkaðir á fyrirtækjum og barnabætur verið hækkaðar. Nú er ætlunin að gera enn betur við barnafólkið með stóraukningu barnabóta og fella brott eignarskattinn sem er ekki síst í þágu aldraðra. En megininntak þessara breytinga, herra forseti, er að lækka skattana á venjulegu vinnandi fólki. Ég spyr: Hvað er eiginlega athugavert við það? Stjórnarandstaðan talar eins og það megi aldrei koma til móts við hinn venjulega vinnandi mann sem þó stendur undir öllu velferðarkerfinu með sköttunum sínum. Það hafa allir keppst við að kvarta undan jaðaráhrifum í skattkerfinu árum saman. Nú er gert átak með þessu frumvarpi til að draga úr slíkum áhrifum og þá kveinkar stjórnarandstaðan sér sem aldrei fyrr.

Okkur hefur tekist að stýra ríkisfjármálunum á undanförnum árum með þeim hætti að skapast hefur verulegt svigrúm til skattalækkana. Afgangur af ríkissjóði, lækkun skulda og lægri vaxtakostnaður gerir kleift að ráðast í aðgerðir sem þessar. Jafnframt er fyrirsjáanlegt að hagvöxtur næstu ára sem ekki síst er drifinn af stóriðjuframkvæmdum sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir, tryggir hagvöxt og tekjuaukningu sem staðið getur undir lækkun skatta. Ég hef leyft mér að kalla það arðgreiðslu til almennings af þeim árangri sem náðst hefur og ég er sannfærður um að því fjármagni sem ríkið skilar með þessum hætti verður vel varið í vasa almennings.

En nú segja sumir að ekki sé rétti tíminn til skattalækkana. Þeir sem því halda fram telja aldrei rétta tímann til að lækka skatta.

Samfylkingin lagði til miklar skattalækkanir í kosningabaráttunni fyrir einu og hálfu ári. Var þá rétti tíminn? Ég hlýt að benda á að hér er um að ræða aðgerðir sem koma til framkvæmda yfir þriggja ára tímabil. Rannsóknir sýna að aðgerðir sem kynntar eru með svo löngum fyrirvara hafa síður þensluhvetjandi áhrif en þær sem gripið er til fyrirvaralaust. Að auki getur enginn fullyrt að almenningur muni verja öllum tekjuauka sínum í neyslu og innflutning. Ekki er ólíklegt að stór hluti hans muni fara til að auka sparnað eða greiða niður skuldir.

Hvað rekst á annars horn í málflutningi stjórnarandstöðunnar það sem ég hef heyrt hingað til frá því að þetta frumvarp var kynnt. Kannski verður þar breyting á í dag. Ýmist er sagt að skattalækkanir séu stórháskalegar því að þær muni auka þenslu. Síðan er sagt að þær séu ómögulegar af því að þær gagnist ekki rétta fólkinu. Með öðrum orðum, skattalækkanir valda engri þenslu svo fremi að þær gagnist réttum aðilum. Það er nú ekki mikið gefandi fyrir málflutning af þessu tagi sem ég vona að við munum nú ekki heyra mikið af í umræðunni hér í dag.

Virðulegi forseti. Ég vil að endingu leyfa mér að leggja til að þessu frumvarpi verði að þessari umræðu lokinni vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr.