131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[13:59]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna afstöðu þingmannsins til þeirra breytinga sem fram eiga að koma á síðari hluta þessa tímabils hvað varðar barnabætur. En það er alveg ljóst að reynt hefur verið að búa þannig um hnútana í þessu frumvarpi að það verði veruleg tekjuaukning, kaupmáttaraukning hjá þeim hópum fólks sem lakar standa, millitekjuhópum og lágtekjufólki, ekki síst með börn. En það er líka komið til móts við tekjulága íbúðareigendur sem eru að borga eignarskatta (Gripið fram í.) og fleiri slíka hópa sem ástæða hefur verið til að létta undir með en sem hefur dregist og ekki verið ráðist í að gera fyrr en núna.

Ég held því að ef þingmaðurinn skoðar kaupmáttarbreytingarnar sem af þessu frumvarpi munu leiða þá komist hann að þeirri niðurstöðu að það sem hann sagði hér í lokin um áhrif þessa á samningaandrúmsloftið eða stöðu mála á vinnumarkaði sé rangt. Ég held að þetta muni þvert á móti hafa jákvæð áhrif en ekki neikvæð.