131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:03]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér varð það á að vekja athygli á frumleika framsöguræðu hæstv. ráðherra að því leyti að nota ekki tímann í að tala fyrir sínu frumvarpi eða mæla fyrir því og útskýra það, heldur eyða orkunni í að ráðast að því sem hann taldi líklegt að yrði málflutningur stjórnarnandstöðunnar síðar í umræðunni.

Þetta er ákaflega frumleg aðferðafræði í rökræðum og ég var bara að vekja athygli á því en ekki að reyna að skammta hæstv. ráðherra umræðuefni að öðru leyti og þaðan af síður hef ég mikla trú á að ég komi til með að hafa verulega bætandi áhrif á skoðanir hæstv. ráðherra þó þess sé vissulega þörf.

Það er augljóst mál að ríkisstjórnin er í bullandi varnarstellingum gagnvart því sem blasir við hverju mannsbarni, að þessi skattalækkunargjörningur núna, skattalækkunarleiðangur á einhverjum mestu þensluárum sem í stefnir um áratuga skeið er glapræði. Og það er sérstaklega viðkvæmt af einni ástæðu að nefna þetta hér, það er eins og snara í hengds manns húsi. Það er af því að allir hagfræðingarnir koma og segja: Jú, af því að samkvæmt kennslubókunum og hægri hugmyndafræðinni er alltaf gott að lækka skatta, en þeir bæta þó við mennirnir, hafa manndóm í sér til þess: enda verði skorið algerlega niður á móti, þá kannski sleppur þetta, þá fer kannski ekki allt á hvolf. Þetta vill ríkisstjórnin ekki láta ræða, auðvitað ekki, að það á taka milli 20 og 30 milljarða út úr tekjum ríkissjóðs og þess mun sjá stað. Það er ekki búið að finna upp gullgerðarvél í ráðuneytinu við Arnarhvol. Það verða ekki til verðmæti af engu frekar en í Seðlabankanum forðum þannig að einhvern veginn þarf að mæta því þegar tekjur ríkisins dragast saman sem þessu nemur að breyttu breytanda að sjálfsögðu. Hagfræðingarnir segja: Þetta er í lagi, enda verði skorið niður á móti þannig að það nýja fé sem fer þarna í umferð valdi ekki viðbótarþenslu, verði ekki olía á eldinn. Þetta vill ríkisstjórnin ekki heyra nefnt því það er verið að reyna að telja mönnum trú um að það sé hægt að gera hvort tveggja, lækka skatta og vera góður við allt og alla og halda algerlega óbreyttu velferðarstigi í landinu eftir sem áður.