131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:05]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þingmaðurinn heldur áfram að vera í mikilli vörn. Kannski er það vegna þess hvers lags útreið hann fékk í Kastljósinu í gær hjá ungum þingmanni að hann er ekki alveg búinn að ná áttum í þessu máli.

Kjarni málsins er sá sem ég útlistaði áðan þegar ég gerði grein fyrir frumvarpinu í ítarlegu máli. Ég fór nákvæmlega yfir efnisatriði þess, í hverju þau fælust og hvað þau mundu hafa í för með sér fyrir almenning í landinu. Það er reyndar ekki nýtt að þetta standi til. Ég lét þess jafnframt getið að þetta hefur staðið til í eitt og hálft ár af hálfu stjórnarflokkanna og ég man ekki betur en bæði talsmaður og formaður Samfylkingarinnar hafi reitt fram hugmyndir um miklar skattalækkanir og sama er að segja um Frjálslynda flokkinn sem gerði það líka. Það er því alveg ljóst að fyrir kosningar í fyrra voru allir stjórnmálaflokkar á því að hægt væri að gera verulegt átak í þessum efnum nema flokkur hv. þingmanns Vinstri grænna sem vill, ef eitthvað er og ef ég þekki þá rétt, vini mína í þeim flokki, hækka skattana en ekki lækka þá. Það vilja þeir gera, þeir vilja hækka skattana.

Herra forseti. Hér er framfaramál á ferðinni sem mun skipta sköpum í framtíðinni. Það er mjög mikilvægt að nota tækifærið núna, þegar það er lag til að gera hluti í skattamálum, að lækka jarðaráhrifin hvar sem því verður við komið með þeim áhrifum sem það mun hafa á vinnuframboð og fleira í efnahagslegum þáttum í umhverfi okkar á næstu árum.