131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:45]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. nefndi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til sögunnar. Í nýlegu áliti hans segir að vel heppnaðar kerfisumbætur séu m.a. ein helsta ástæða þess að íslenska hagkerfið sé nú eitt það sveigjanlegasta og kraftmesta í heimi. Þingmaðurinn gerir sér hins vegar ekki grein fyrir því að þessar skattbreytingar eru áframhald þeirra skipulagsbreytinga og kerfisbreytinga sem hér hafa átt sér stað, nauðsynlegt áframhald.

Þingmaðurinn var seinheppinn í ræðu sinni. Hann gat um kenningar Samfylkingarinnar í virðisaukaskattsmálum. Hann er sennilega búinn að gleyma því að fyrir kosningarnar í fyrra spurðu Samtök verslunar og þjónustu hver væri stefna Samfylkingarinnar varðandi virðisaukaskattinn, hvort gera ætti breytingar á honum. Svarið var nei. Einfalt orð, eitt orð, nei.

Síðan ákvað flokkurinn að fylgja í kjölfarið þegar Sjálfstæðisflokkurinn var búinn að móta sína stefnu af því að honum fannst það sniðugt og breytti um stefnu og kom núna með það sem hann hefur flutt hér á þinginu ár eftir ár.

Hv. þingmaður talaði um að skattalækkanirnar væru fugl í skógi. Það er misskilningur. Samfylkingin er býsna seinheppin. Hún er ekki fugl í skógi. Hún er furðufugl í skógi.