131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:47]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Samfylkingin er ævinlega jafnseinheppin. Hún krefst ýmist aukins aðhalds eða aukinna útgjalda. Auðvitað liggur það fyrir að aðhald þarf að vera fylgifiskur þessara skattalækkana. Það dettur engum manni annað í hug. En það mun ekki koma niður á nauðsynlegri þjónustu.

Það er líka athyglisvert að hv. þingmaður svarar engu því sem ég sagði hér um virðisaukaskattinn, þetta litla nei hér, Samfylking, nei við kerfisbreytingum í virðisaukaskatti. Hann gefur sér ekki tíma til þess að svara því. Ég hef nú ekki nennt að standa í því að vera að draga þetta plagg hér á loft í þingsölum í vetur vegna þess að þetta er bara til marks um það hvernig Samfylkingin sveiflast til og frá. En þetta er hins vegar alveg ágætt dæmi um nákvæmlega það hvernig þessi ágæti stjórnmálaflokkur sveiflast til og frá.

Ég fagna því sem hv. þingmaður sagði um frumvarpið sem hér er verið að ræða að því marki sem það var málefnalegt. En því miður var það nú ekki allt saman þannig, t.d. ekki þegar þingmaðurinn leiddist út í þann ömurlega pytt að bera saman skuldbindingar vegna lífeyrismála og svo greiðslur úr ríkissjóði.