131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:48]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Svarið sem hæstv. ráðherra gaf hér var mikilvægt. Hæstv. ráðherra staðfesti það hér í fyrsta skipti — ég hef a.m.k. ekki heyrt það áður — að það ætti að grípa til niðurskurðar. Þá hljótum við að krefjast þess af hæstv. ráðherra og talsmönnum stjórnarliðsins sem koma í þessa umræðu að þeir greini okkur undanbragðalaust frá því hvar eigi að skera niður. Á að hækka komugjöld? Á að fara áfram þá slóð sem hér var verið að troða í gær og hækka skólagjöld? Er það það sem þessi ríkisstjórn ætlar að gera til þess að vega upp á móti skattalækkununum? Er það þá virkilega þannig þegar upp verður staðið að ef þeim verður einhvern tíma hrint í framkvæmd þá muni almenningur sem á að njóta ávinningsins sjálfur þurfa að greiða kostnaðinn við þær?