131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:49]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með þetta stórkostlega frumvarp. Þetta er mjög ánægjulegt frumvarp og ég óska þingmönnum öllum til hamingju með þetta frumvarp. Ég óska landsmönnum öllum til hamingju með þetta frumvarp. (Gripið fram í.)

Ég hitti konu í fyrradag sem spurði mig: „Þarf stjórnarandstaðan alltaf að vera á móti? Er hún fúll á móti? Þurfa menn endilega að vera á móti af því að þeir eru í stjórnarandstöðu, góðum málum eins og þessu máli?“

Hv. þingmaður talar um fugl í skógi. Trúir hann ekki lagasetningu frá Alþingi? Hann vill fá barnabætur fyrr og lækkun virðisaukaskatts. Verður þá engin þensla? Hvað segir hv. þingmaður um fátæktargildru sem menn tala um á góðum degi? Vill hann koma með virðisaukaskatt sem eykur fátæktargildruna eða vill hann koma með þetta frumvarp sem minnkar hana?