131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:59]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eftir langa og yfirgripsmikla ræðu hv. formanns Samfylkingarinnar er maður í raun litlu nær um stefnu Samfylkingarinnar í skattamálum rétt núna eins og fyrir kosningar. Annars vegar hefur formaðurinn áhyggjur af þensluáhrifum skattbreytinga, skattalækkunar. Hins vegar liggur þessi stóri 30 milljarða breytilegi skattapakki Samfylkingarinnar undir. Þetta gengur ekki alveg upp í mínum huga.

Hins vegar verður hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni nokkuð tíðrætt um barnabætur og setur þær í forgang í sínum skattalækkunum. Hann gerir fulllítið úr þeim miklu breytingum sem eru gerðar á því sviði í því frumvarpi sem hér er til umræðu.

En fyrst hv. þingmaður hefur svona mikinn áhuga á barnabótum þá spyr ég: Hvað hefur breyst frá því að hv. þingmaður var sjálfur í ríkisstjórn, en á því kjörtímabili lækkuðu framlög til barnabóta um einn milljarð? (Forseti hringir.) Ég endurtek, virðulegi forseti, þau lækkuðu.