131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:04]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt sem fram kom í ræðu hæstv. fjármálaráðherra áðan að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafði sérstöðu meðal stjórnmálaflokkanna í kosningabaráttunni á útmánuðum 2003 að því leyti til að við tókum ekki þátt í þeim skattalækkunarloforðasöng sem þá var sunginn. Kannski má segja að eitt annað framboð sem ekki náði mönnum kjörnum á þing en bauð fram á landsvísu hafi talað á hliðstæðum nótum.

Hvers vegna gerðum við það ekki? Jú, það eru a.m.k. þrjár veigamiklar ástæður því til skýringar. Sú fyrsta er að það var skoðun okkar og er enn þann dag í dag að það sé ábyrgðarlaust að lofa stórfelldum ívilnunum, skattalækkunum eða útgjöldum eftir atvikum, langt fram í tímann með þeim hætti sem þarna var gert. Út á hvað? Út á spár og væntingar um hagvöxt, gullöld og gleðitíð í efnahagsmálum sem engin trygging er fyrir að gangi eftir.

Í öðru lagi er það skoðun okkar að við viljum öflugt samábyrgt velferðarkerfi. Við töluðum um það fyrir síðustu kosningar að við vildum mynda velferðarstjórn. Hver ættu að vera verkefni þeirrar velferðarstjórnar? Jú, að styrkja innviði velferðarsamfélagsins á Íslandi á nýjan leik. Þeir hafa veikst og við höfum dregist aftur úr hinum Norðurlöndunum í ýmsum samanburði þegar mæld eru lífskjör, velferðarþjónusta, hagsmunir sjúklinga, aldraðra, öryrkja o.s.frv.

Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Stjórnmálamenn eiga að vera heiðarlegir og koma hreint til dyranna í þeim efnum. Það á ekki að reyna að kaupa sér vinsældir á ódýrum forsendum af því tagi að það sé hægt að gera hvort tveggja, spara krónuna og eyða henni. Það er ekki hægt í bókhaldi ríkissjóðs frekar en annarra eininga í landinu, ekki frekar en hjá heimilunum eða fyrirtækjunum.

Í þriðja lagi höfum við auðvitað mikla fyrirvara á þeim útfærslum, því inntaki skattbreytinganna og þeirri þróun í skattamálum sem hér hefur verið við lýði um nokkurt árabil og hefur flutt skattbyrðina til í landinu þannig að nemur tugum milljarða. Skattbyrðin hefur verið flutt frá hagnaði fyrirtækja, háum tekjum, fjármagnsgróða, söluhagnaði hlutabréfa, arði og öðru slíku yfir á almennt launafólk — menn borga nú skatta af lægri tekjum en áður — og yfir í óbeina skatta.

Skattaprógramm ríkisstjórnarinnar núna er óráð og óréttlátt að okkar mati. Það er það vegna þess að stórfelldar skattalækkanir í skilningnum skerðing á tekjum ríkissjóðs eru ekki skynsamlegar við núverandi aðstæður. Við höfum bara svo mikla þörf fyrir þessar tekjur vegna brýnna verkefna sem þyrfti að ráðast í.

Í öðru lagi er innihald, inntak og útfærsla þessara breytinga þannig að við getum ekki mælt með þeim nema að einu leyti til, í hækkuðum barnabótum.

Í þriðja lagi eru aðstæður þannig í hagkerfinu að það er glapræði að hella olíu á þann eld verðbólgu, þenslu og viðskiptahalla sem núna er við að glíma. Það verður fróðlegt að sjá t.d. hvað aumingja Seðlabankinn reynir að segja í skammdegisskýrslu sinni sem er væntanleg í byrjun desember. Það verður fróðlegt að sjá hvort aumingja Seðlabankinn reynir einn, aleinn, að róa eitthvað á móti straumnum. Það virðist ríkja algert þagnarsamsæri um að allt sé í fína lagi, þetta geri ekkert til, þetta reddist einhvern veginn. Gamli íslenski hugsunarhátturinn ræður núna ríkjum, þetta reddast. Fjármálaráðherrann og ríkisstjórnin gengu fram með því hugarfari: Þetta reddast. Bankarnir: Þetta reddast. Fleiri aðilar hegða sér líkt.

Ég vil taka það fram varðandi barnabæturnar vegna þess að þær hafa verið hér nefndar að að sjálfsögðu fögnum við því, og þótt fyrr hefði verið, að ríkisstjórnin hefjist handa um að skila að einhverju leyti til baka þeirri skerðingu barnabóta sem hún hefur staðið fyrir. Hvar er nú Framsóknarflokkurinn, herra forseti? Nú væri gaman að hafa þá hérna, vígreifu framsóknarmennina sem voru gapandi áðan í andsvörum og kallandi fram í. Var það ekki Framsóknarflokkurinn sem kom inn í ríkisstjórn 1995, og gerði hvað með Sjálfstæðisflokknum? Tekjutengdi barnabætur að fullu, 100%, þannig að enginn greinarmunur var gerður á barnafjölskyldum og öðrum þegar kom upp eftir tekjubilinu, skerti bæturnar og gerði viðmiðanir óhagstæðari.

Svo fengu menn auðvitað móral eftir þetta og lofuðu bót og betrun. Og nú á að hefjast handa að einhverju leyti við að skila þessu til baka, þó ekki fyrr en 2006. Þetta er ekki forgangsmál hjá ríkisstjórninni, ekki einu sinni hjá Framsóknarflokknum sem var gapandi um þetta. Komi framsóknarmenn hér alveg endilega og við skulum rifja upp sögu barnabótanna og hvernig þær hafa þróast á undanförnum árum, frá því að þær voru umtalsverð búbót fyrir barnafjölskyldurnar, voru að stórum hluta til ótekjutengdar þannig að þær gerðu réttlátan og eðlilegan greinarmun á þeim útgjöldum sem barnafjölskyldur hafa umfram aðra í landinu.

Í fyrsta lagi, herra forseti, um skattalækkanirnar sem hér eru á ferðinni í skilningnum tekjutap ríkissjóðs, tekjutap hins opinbera, minni tekjur til að standa straum af velferðarsamfélaginu á Íslandi. Fjóra milljarða á að setja út á næsta ári í minni tekjum hjá ríkissjóði, samtals rúma 20 milljarða í minni tekjum á tímabilinu og 2,4 milljarða í aukin útgjöld vegna barnabóta þegar það er að fullu komið til framkvæmda á árinu 2007.

Ég held því að vísu fram og hef þó nokkra tilfinningu fyrir því að hér sé um vanmat að ræða. Ég held að það sé líklegt að tekjutap ríkissjóðs verði meira en þessu nemur, það verði 18–20 milljarðar vegna lækkunar tekjuskattsins eins. Þar til viðbótar koma 7 milljarðar í eignarskattinum miðað við það sem hann á að skila á næsta ári og gleymum því ekki að innbyggt í gildandi tekjuskattslög er afnám hátekjuskattsins sem á að skila 1.200 millj. á næsta ári, mundi skila u.þ.b. 1.800 millj. ef það væri lagt á eins og var gert árið 2003 og fer niður í núll á árinu 2007.

Ef við tökum hátekjuskattinn þarna með og reiknum með að þetta mat mitt sé ekki fjarri lagi, að tekjuskatturinn einn sé 18–20 milljarðar, erum við kannski að tala um, að teknu tilliti til útgjalda vegna barnabóta, frekar 23–26 milljarða kr. en 20–22.

Hvaða stærðir eru þetta? Jú, þetta er þá u.þ.b. rekstrarkostnaður Alþingis í 12 ár. Það mætti reka Alþingi Íslendinga í 12 ár fyrir þær tekjur sem þarna á að afsala á hverju ári frá og með 2007. Þetta er rekstur Háskóla Íslands í heild sinni í fjögur og hálft ár. Þetta er rekstur Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri í sjö ár.

Halda menn að ekkert muni um þetta? Halda menn að þetta bara gerist sisona, þetta sé allt í lagi, ekkert vandamál? Ég held að annað eigi eftir að koma á daginn. Við stöndum frammi fyrir bullandi þrengingum í rekstri þessara stofnana margra hverra í dag. Bíddu, hvernig er ástandið á Landspítala – háskólasjúkrahúsi eða Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri? Eru menn þar ekki í niðurskurðaraðgerðum? Er ekki verið að úthýsa starfsemi af því að opinberu sjúkrahúsin ráða ekki við hana, hafa ekki fjárveitingar til hennar?

Hvernig er með háskólana? Á ekki að skafa 140 millj. á næsta ári upp úr vösum námsmanna í hækkuð skráningargjöld? Er það ekki? Jú.

Hvernig er með öryrkjana og samningana við þá? Það er ekki nokkur leið að fá 500 millj. til að standa við samninginn við öryrkja sem ríkisstjórnin ætlar að láta sig hafa að svíkja. Það eru einhver ömurlegustu svik sem maður hefur upplifað í stjórnmálasögu síðari ára. Lesi menn Morgunblaðið, Dagblaðið eða Fréttablaðið í dag, auglýsingu Öryrkjabandalagsins og beinar tilvitnanir þar í ráðherra. Standi þeir frammi fyrir því þar sem hæstv. heilbrigðisráðherra marglýsti því yfir að að hans áliti væri þetta samningur og að hans áliti vantaði enn þá hálfan milljarð til þess að efna hann. Hann sagði það í beinum tilvitnunum við fjölmiðla á síðasta ári aftur og aftur.

Hvað með lyfjakostnaðinn? Er ekki verið að velta auknum kostnaði yfir á sjúklinga vegna lyfja? Jú. Eru þá ekki til peningar í landinu til að létta að einhverju leyti þeim kostnaði af öldruðu og/eða veiku fólki?

Hvernig er með varðskipið sem menn er búið að dreyma um að fá hér í mörg ár til þess að hafa sæmilega öflugt skip sem ráði við aðstæður og þær stærðir í skipaflotanum sem við er að glíma í dag? Nei, það er ekki hægt að byggja það og verður væntanlega ekki á næstu árum. Það er ekki eins og að menn vaði í peningum og geti látið eins og hægt sé að gera þetta án þess að þetta komi nokkurs staðar við.

Hvað með þjóðgarðana, af því að ég heyri að hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra bankar í borðið? Hvað með uppbyggingu á slíkum sviðum? Væri ekki í lagi að hafa örlitla fjármuni handa á milli til að standa sómasamlega að þeim? Menn eru komnir niður á hnén þar eins og víða annars staðar og farnir að velta fyrir sér hvort biðja eigi um leyfi til að selja inn á náttúruperlurnar af því að þeir fá ekki peningana frá hinu opinbera. Ferðaþjónustan, mesta vaxtargrein íslensks atvinnulífs, og næststærsti gjaldeyrisskapandinn fær nánast engan stuðning af einu eða neinu tagi. Náttúrugersemar liggja undir skemmdum um allt land af því að það er ekki hægt að taka sómasamlega á móti þeim fjölda ferðamanna sem þangað kemur.

Innihald þessa skattapakka, lækkun tekjuskattsins, niðurfelling hátekjuskattsins, sem einnig er á ferðinni meðal annars sem þarna er undir, er þannig að þeir fá mest sem mest hafa. Ríkisstjórnin reyndi í framsetningu sinni á málinu að láta þetta líta þannig út að um væri að ræða sérstakan stuðning við lágtekjufólk, millitekjufólk og barnafjölskyldur. Auðvitað fara barnabætur eðli málsins samkvæmt til barnafólks en hvernig var framsetningin hjá ríkisstjórninni? Jú, það voru dregin upp fín gröf og línurit sem sýndu hlutfallslega aukningu, hlutfallslegan ávinning tekjuhópanna. Af hverju ætli það sé gert? Jú, það er auðvitað af því það má ekki sýna krónutölurnar. Það má ekki sýna þær því að þá líta myndirnar ekki eins vel út. Þá kemur það náttúrlega í ljós, svo ég tali nú ekki um ef hátekjuskattbreytingin yrði höfð þar með, hverjir fá mest. Þá kemur það í ljós.

Fleira er áróðurskennt í þessari framsetningu t.d. það sem lýtur að skattleysismörkunum. Það er svipað og með fleira í þessum dúr þegar menn reikna út ávinning kennara af kjarasamningunum. Þá setja menn dæmið þannig upp að það er reiknað með því að verðbólgan detti í núll á morgun og haldist þannig. Menn tala jafnframt um þetta mikla hækkun skattleysismarkanna. En ætli verðlagið breytist ekki á sama tíma? Getur ekki verið að launa- og verðlagsþróunin geri það að verkum að þessi skattleysismörk geri lítið meira en að halda í við þá þróun? Hver er þá raunbreytingin? Er þá í reynd verið að létta sköttum af lágtekjufólki? Nei, þá er það kannski að sleppa á núlli.

Staðreyndin er auðvitað sú að stærsta einstaka breytingin í skattamálum á Íslandi síðastliðin 15 ár hefur falist í því að halda niðri skattleysismörkunum. Þannig hefur þungi skattbyrðanna færst til yfir á lægri enda launanna. Þau ættu að vera yfir 90 þús. kr. í dag ef þau hefðu fylgt verðlagsþróun frá því staðgreiðslan var tekin upp. Þau ættu að vera um 110 þús. kr. ef þau hefðu fylgt launaþróun á sama tíma. Þá væru menn ekki að borga skatta af elli- og örorkulífeyri. Þá væru menn ekki að borga skatta af atvinnuleysisbótum. Þá væru menn ekki að borga skatta af allra lægstu umsömdu launum, eins og það var á sínum tíma. Staðreyndin er sú að menn stilltu skattleysismörkin af við það að menn væru nokkurn veginn skattlausir sem höfðu lægstu tekjur samfélagsins. Mörkin hafa hins vegar þróast þannig að það á í raun og veru ekki að vera til einn einasti Íslendingur sem ekki er með tekjur um eða yfir skattleysismörkunum.

Við skulum líta á nokkur dæmi þar sem við erum ekki með hlutfallslegan ávinning, herra forseti, heldur krónutölur. Sjáum hvernig það kemur út og ég hef leyft mér að taka hátekjuskattinn inn í því að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki hátt um það að það er auðvitað sérstök jólagjöf í gangi núna, ár eftir ár, til tekjuhæsta fólksins í landinu. Þar liggur samúð hæstv. ríkisstjórnar. Hún liggur þar. Það eru kannski jaðaráhrifin sem hæstv. fjármálaráðherra er svo óskaplega upptekinn af.

Hátekjuskatturinn var á árinu 2003, vegna tekna á árinu 2002, 7%. Hann var 7% á laun hjá einstaklingi fyrir ofan um 340 þús. kr. Hann er 5% í ár vegna launa í fyrra. Hann á að vera 4% á næsta ári vegna launa yfirstandandi árs, 2% á árinu 2006 vegna launa ársins 2005 og búið. Núll, eftir það.

Það þýðir að á þessu töfraári 2007, kosningaárinu, er enginn hátekjuskattur. Skattar af launum ofan við 340 þús. kr., eða segjum 350 þús. kr. hjá einstaklingi, hafa af þeim ástæðum einum lækkað um sjö prósentustig, 7%. Til viðbótar koma 4% samkvæmt þessu frumvarpi. Með öðrum orðum fær einstaklingar með 350 þús. kr. í tekjur eða þar fyrir ofan, gagnvart þeim hluta teknanna, skattalækkun, miðað við árið 2003, á árinu 2007 sem nemur 11%. Það er vel í lagt og myndarlegt gagnvart þessum hópi.

Þannig fær milljón króna maðurinn, með milljón í tekjur á mánuði, sem eru nú býsna margir með tólf milljónir á ári, við að hátekjuskatturinn fellur niður, um 45 þús. kr. skattalækkun á mánuði. Það eru 7% af tekjum yfir 930 þús. kr. á mánuði. Það munar um það. Það munar dálítið um það. Síðan fær hann einar 30 þús. kr. í sérstaka skattalækkun vegna þess sem er á ferðinni í þessu frumvarpi. Það geta orðið um 80 þús. kr. á mánuði, reiknað út frá núverandi skattleysismörkum til að einfalda dæmið, sem þessi maður fær, eða 980 þús. á ári. Fast að milljón á ári enda auðvelt að reikna það, stórt séð 11% skattalækkun af öllum tekjunum og 4% af því sem er neðan við 340 þús. kr.

Hvað fær hundrað þúsund króna maðurinn? Hvað fá þeir sem eru með lægstu umsamin laun í dag? Þau eru til, undir 100 þús. kr. eins og menn vita. Jú, það er þúsund kall á mánuði, eitt til tvö þús. kr. á mánuði, eftir því hvernig það er reiknað miðað við núgildandi eða væntanleg skattleysismörk, 12–20 þús. á ári. Það svarar til flugfargjalds aðra leiðina norður á Þórshöfn, aðra leiðina. Á meðan fær hátekjumaðurinn sjálfsagt 10–15 Lundúnaferðir, báðar leiðir. Hann kæmist sennilega fimm ferðir til Ástralíu fram og til baka fyrir þá skattalækkun eina sem fólgin er í þessum pakka ríkisstjórnarinnar í heild sinni.

Svona er þetta. Þetta eru krónurnar. Þetta er ekki hinn hlutfallslegi ávinningur. Það er auðvitað verið að fletja skattkerfið á Íslandi þannig út að það verður leitun að öðru eins eftir þessar breytingar. Það er verið að búa til sérstaka skattaparadís fyrir hátekjufólk. Fari menn til hinna Norðurlandanna og skoði hvaða prósentur menn borga af tekjum af stærðargráðunni ein milljón krónur íslenskar á mánuði. Halda menn að menn komi til með að sjá þar prósentur eins og þær sem verða við lýði á Íslandi árið 2007? Nei, það verður hvergi.

Auðvitað væri hægt að taka fleiri dæmi um þetta. Það væri t.d. fróðlegt að taka dæmi af stjórnmálamönnunum sjálfum. Tímaritið Frjáls verslun birtir upplýsingar um laun manna og það er ekkert leyndarmál, það eru opinber gögn, sem og skattskráin er, enn þá a.m.k., ungum íhaldsmönnum hefur ekki enn tekist að fá hana læsta niður. Þar er fróðlegt að sjá hvernig þetta skiptist í fjölda á hinar ýmsu stéttir þótt enginn hafi haldið því fram að þessi yfirlit Frjálsrar verslunar séu tæmandi. En það er ágætt fyrir menn að blaða aðeins í þessu þegar þeir ræða um skatta og velta fyrir sér hverjum virkilega nýtist skattstefna ríkisstjórnarinnar. Hverjir virkilega græði á henni.

Við getum t.d. tekið okkur tvo, mig og hæstv. fjármálaráðherra, og velt því fyrir okkur hvernig þessar breytingar koma við okkur, miðað við þær tekjur sem Frjáls verslun segir að við höfum haft á árinu 2003 og koma fram við álagningu skatta á árinu 2004. Þá er Geir Hilmar Haarde fjármálaráðherra sagður vera með 854 þús. kr. á mánuði, hæstv. fjármálaráðherra. Sá sem hér talar með 409 þús. kr. Nú skuluð þið bæta hinu fræga desemberálagi við það og þá væru þau laun komin í rúmlega 600 þús. kr. Hvað er þá verið að færa undirrituðum og Geir H. Haarde í skattalækkanir á árinu 2007 miðað við skattana eins og þeir voru lagðir á árinu 2003 með þessum breytingum í heild sinni, tekjuskattinum og afnámi hátekjuskattsins? Jú, ætli það sé ekki þannig að það sé verið að lækka skatta á hæstv. fjármálaráðherra um 55–60 þús. kr. á mánuði, miðað við það sem hann hefði borgað eins og álagningin var 2003 og skattana á undirrituðum um 35–36 þús. kr. á mánuði. Skattar fjármálaráðherra verða sem sagt, á árinu 2007, líklega um 680 þús. kr. lægri en þeir hefðu verið miðað við álagninguna 2003 og skattar undirritaðs 420–425 þús. kr. lægri. Ég segi: Við höfum ekkert við þessar skattalækkanir að gera. Við getum vel og eigum að borga þessa skatta og gleðjast yfir því að þeir standi straum af brýnum samfélagslegum verkefnum, þeir renni til velferðarmála og búi betur að þeim sem hafa þörf fyrir það í landinu.

Hverjum er verið að færa þessar gjafir, samkvæmt þessum listum Frjálsrar verslunar? Hverjum er verið að færa þessar gjafir? Já, ég kalla þetta gjafir, vegna þess að það er verið að stórauka tekjur fólks á kostnað þess að minna verður til skiptanna til brýnna velferðarverkefna í landinu á komandi árum. Það verður þannig, því miður. Menn geta glott aftur á hnakka hérna, allir hægri mennirnir í salnum. Í einlægri bókstafstrú sinni á að þetta sé allt saman hægt og muni allt saman ganga upp samkvæmt teoríunum. Verðmætin aukast og aukast og skatttekjurnar aukast eftir því sem prósenturnar lækka, segja þeir alltaf, hv. þm. Pétur Blöndal & Co. Það er helst á þeim að skilja að þær verði aldrei meiri heldur en þegar prósentan er komin ofan í núll. Þeir tala þannig. Tala gjörsamlega út í loftið. (PHB: Það er ekki rétt.) Það er þannig að það eru tæplega 80 forstjórar í landinu með nákvæmlega þessar tekjur, upp á eina milljón kr. á mánuði. (PHB: Hvað margir sjómenn?) Það eru tæplega 80 forstjórar. Það eru 73 starfsmenn fjármálafyrirtækja. Aftur vek ég athygli á því að hér er ekkert um einhverja tæmandi lista að ræða. Þetta eru … (Gripið fram í.) Það kemur að því, verið ekki svona órólegir, háttvirtir þingmenn. Þetta er sá fjöldi sem rataði hefur inn á þessa lista. Það eru 54 „ýmsir menn úr atvinnulífinu“ eins og það er kallað; 27 næstráðendur í fyrirtækjum og fleiri millistjórnendur með tekjur yfir eina milljón. Það eru sjö forsetar eða forseti, ráðherrar og alþingismenn. Það eru fimm sveitarstjórnarmenn. Þar eru tveir hjá hagsmunasamtökum, báðir hjá LÍÚ. Í þeim hópi eru einnig fimm embættismenn og forstjórar ríkisfyrirtækja, 12 lögfræðingar, 6 endurskoðendur, 100 læknar og hjúkrunarfræðingar, 2 tannlæknar, 8 flugstarfsmenn, 5 verkfræðingar og sérfræðingar, 3 fjölmiðlamenn, þar af ritstjóri Morgunblaðsins örugglega og 30 sjómenn og útgerðarmenn. Léttir mönnum við að heyra það? 30 sjómenn og útgerðarmenn. (Gripið fram í: Hvað voru margir læknar?) Þrjátíu sjómenn og útgerðarmenn. Hundrað læknar. Þetta eru 420 einstaklingar sem samkvæmt þessum listum hafa á þessu ári tekjur yfir 1 millj. kr.

Þessi hópur og sambærilega settir aðilar í samfélaginu, sem auðvitað eru fleiri og við vitum það, einhver hundruð í viðbót væntanlega, fá í grófum dráttum milljón í viðbót í vasann á árinu 2007. (Gripið fram í.) Ja, það er stærðargráðan í þessu. Við getum auðvitað reiknað þetta allt út á grundvelli nákvæmari útreikninga ef menn vilja en í grófum dráttum er þetta svona, þegar við tökum svona meðaldreifinguna á tekjum í þessum hópi. Menn skulu hafa í huga að í þessum hópi eru tekjur allt upp í 10–12 millj. kr. á mánuði og algengt að sjá tekjur á milli 2 og 4 millj. kr.

Þannig er þetta náttúrlega en um þetta má auðvitað ekki tala. Að sjálfsögðu ekki. Það á bara að fela þetta í hlutfallslegum ávinningi og láta það hverfa þannig.

Það er auðvitað staðreynd, herra forseti, að hér er fyrst og fremst verið að skapa aðstæður í skattamálum gegnum það að fletja skattkerfið út með þeim hætti sem ríkisstjórnin er að gera, í gegnum það að hér hefur alveg sérstaklega verið hlúð að þeim sem taka hagnað til sín í gegnum fjármagnstekjur, arð og söluhagnað hlutabréfa þannig að það er eiginlega hvergi í heiminum nema á einhverjum skattasmugueyjum búið betur að slíkum en á Íslandi. Það sýnir samanburður sem m.a liggur hér fyrir í þingskjölum.

Búið er að færa tekjuskatt af hagnaði fyrirtækja niður í eitt það lægsta sem þekkist í OECD og nú er verið að klára dæmið með því að hygla alveg sérstaklega þeim sem hærri hafa launin í landinu, fletja prósentuna þannig niður.

Hver verður svo niðurstaðan og hver hefur þróunin verið samhliða þessum skattbreytingum sem hafa verið í gangi hérna meira og minna síðan frá því upp úr 1990, eftir stjórnarskiptin 1991? Hver hefur þróunin verið á hina hliðina? Hún hefur verið upptaka komugjalda í heilbrigðiskerfinu, hún hefur verið aukinn kostnaður sjúklinga vegna lyfjanotkunar, hún hefur verið sú að dregið hefur verið úr endurgreiðslum tannlæknakostnaðar þannig að það liggur fyrir að menn eru farnir að veigra sér við í stórum stíl að leita til tannlækna með dýra þjónustu sem ekki fæst endurgreidd nema að litlu eða engu leyti. Þetta liggur fyrir.

Þróunin hefur verið sú að kostnaðinum er í vaxandi mæli velt yfir á notendurna og á hverjum bitnar það þungbærast? Jú, auðvitað þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Þannig er nú verið að breyta samfélaginu, frú forseti.

Þá um aðstæðurnar sem við er að glíma gagnvart þessum skattalækkunum. Hæstv. fjármálaráðherra gerir hér heldur lítið úr þeim og verður mjög hvefsinn þegar minnt er á það að talsverð umræða hefur verið uppi í þjóðfélaginu, eðlilega og skárra væri það nú, um hvort það sé mjög heppilegt, burt séð frá öðru, að fara út í leiðangur af því tagi einmitt núna. Hvernig eru aðstæðurnar? Jú, þær eru þannig að verðbólgan er á uppleið, hún er líklega í kringum 4% á ársgrundvelli núna miðað við hreyfingu síðustu mánaða og stefnir frekar upp á við en hitt. Spáð er verðbólgu af þeirri stærðargráðu næstu tvö til þrjú árin. Það er viðskiptahalli upp á um 100 milljarða á ári að meðaltali núna þetta ár og næstu tvö, því er spáð, ég er ekki að skálda hér neitt upp, tek hér bara til marks um það sem heimild þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins. Þær eru til dekkri en við skulum bara halda okkur við hana. Og það er því miður spáð 50 milljarða viðskiptahalla í framhaldinu af því næstu fjögur ár þar á eftir, 2007, 2008, 2009 og 2010. Það þýðir að á núgildandi verðlagi verður þarna um að ræða 500 milljarða kr. uppsafnaðan viðskiptahalla á árabilinu 2004 til og með 2010, 500 milljarðar. Það eru hátt í tvenn fjárlög ríkisins.

Halda menn að þetta muni ekkert koma við? Menn þurfa ekki að vera útlærðir í stærðfræði til að sjá að það er talsverð greiðslubyrði af skuldum sem þessu nemur við útlönd og þetta gerir greiðslujöfnuðinn og stöðu þjóðarbúsins býsna viðkvæma. Enda hver verður hrein staða þjóðarbúsins í lok þessa tíma? Jú, það er líklegt að hún versni úr þeim 68–69% af landsframleiðslu sem hún er í dag, þ.e. hreinar skuldir erlendis umfram eignir eru af þeirri stærðargráðu upp í líklega 90% af landsframleiðslu strax á árinu 2007. Með öðrum orðum, hreinar skuldir okkar erlendis að frádregnum eignum eru að slaga upp í landsframleiðsluna, heilsársverðmætasköpun í landinu. Langt að baki er nú það met sem slegið var að mig minnir um mitt ár 2000 þegar brúttóskuldirnar fóru fram úr landsframleiðslunni á miðju sumri. Nú tölum við ekki um það lengur að við getum mælt þær eitthvað á stærðargráðunni eitt stykki landsframleiðsla. Nei, við erum að tala um að hreinar erlendar skuldir séu að nálgast þau mörk og halda áfram að aukast sem aldrei fyrr, og því miður ekki bara vegna einhverra fjárfestinga og uppbyggingar í atvinnulífinu. Aðeins um 40% af viðskiptahallanum er með góðum vilja hægt að gjaldfæra þar. Afgangurinn er eyðsla sem að mestu leyti er tekin að láni. Það sést best þegar samsetning einkaneyslunnar er skoðuð og hvernig hún er að aukast miðað við kaupmátt ráðstöfunartekna. Það er fjallað um það í þjóðhagsáætlun fjármálaráðherra og ég veit ekki hvort hann hefur lesið sín eigin plögg. Það hefur kannski verið einhver samviskusamur starfsmaður sem óvart hefur sett þennan texta niður og húsbóndanum hefur láðst að lesa hann, en þar segir m.a. þetta um einkaneysluna og útgjaldaaukningu heimilanna, virðulegur forseti, með leyfi:

„Ekkert lát virðist á útgjaldaaukningu heimilanna. Bráðabirgðatölur fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2004 benda til þess að einkaneysluútgjöld hafi aukist um 7% að raungildi frá sama tíma árið 2003. Að þessu sinni virðist meiri hluti útgjaldaaukningarinnar vera fjármagnaður með lánum þar sem kaupmáttur heildarlauna á þessu tímabili jókst mun minna eða um 2,5%. Margt bendir til að framhald verði á þessari þróun á síðari hluta ársins ef marka má innflutningstölur og innheimtu veltuskatta ríkissjóðs til júlíloka.“ — Síðar í þessum texta segir: „Rétt er að taka fram að þessar mælingar fóru fram áður en hinar miklu breytingar urðu á húsnæðislánamarkaði að frumkvæði bankanna.“

Það kemur síðan þar til viðbótar nú á síðari hluta ársins með nýjum lánum sem nema einhvers staðar af stærðargráðunni 15–20 milljarðar miðað við það sem mér sýnist þegar tekin eru heildarútlán bankanna síðastliðna þrjá mánuði í húsnæðislán og dregin frá uppgreiðsla lána í Íbúðalánasjóði.

Nei, það hefur enginn neinar áhyggjur af þessu, er það nokkuð? Það hefur enginn áhyggjur af því að við erum með skuldsettustu heimili í heimi. Skuldir heimilanna eru að sigla fram úr 200% af ráðstöfunartekjum núna þessi missirin. Þær eru að verða tveggja ára heildarráðstöfunartekjur heimilanna. Sveitarfélögin eru mjög skuldsett og atvinnulífið er mjög skuldsett.

Hvernig halda menn að sjávarútvegurinn standi t.d. ef það kæmi 20–30% gengislækkun bara sisona og hann með obbann af sínum skuldum í erlendri mynt? Jú, hann fengi auðvitað einhvern tekjuauka á móti í innlendum krónum mælt en ætli efnahagsreikningurinn yrði ekki ljótur fyrstu missirin á eftir? Ég er hræddur um það. Ég er hræddur um að það yrði lítið eigið fé í bókhaldi margra sjávarútvegsfyrirtækjanna svona í fyrstunni.

Bankarnir hamast auðvitað við að hjálpa til og það eru allir ægilega hamingjusamir yfir því nema helst félagsmálaráðherra, eftir að hann áttaði sig á í hvaða skyni leiðangur bankanna er gagnvart Íbúðalánasjóði. Þeir eru farnir að veita 100% lán, svokölluð húsnæðislán, sem eru auðvitað bara eins og hver önnur lán með veði í íbúðarhúsnæði. Ríkisstjórnin kemur svo með þennan skattapakka sinn og virðist engar áhyggjur hafa af því að hella þar olíu á eldinn eða kannski væri réttara að segja bensíni.

Að síðustu vil ég nefna í þessu samhengi, herra forseti, fjárhag sveitarfélaganna. Það er auðvitað alveg kostulegt að ríkisstjórnin skuli koma hér með þennan gorgeir og rembing í sambandi við skattamálin og svo er staðan eins og raun ber vitni hjá hinu stjórnsýslustiginu í landinu og hinni meginstoð velferðar- og samfélagsþjónustunnar í landinu, sveitarfélögunum, að þau eru rekin með dúndrandi halla á hverju ári og safna skuldum og hafa gert það samfellt í einn og hálfan áratug. Þannig er staðan. Þau hafa verið að reyna að bjarga sér með eignasölu, með einkavæðingu og með ýmsum slíkum aðferðum og hrekkur skammt.

Ætli það sé ekki að verða býsna þröngt í búi hjá sumum sveitarfélögum á Vestfjörðum hafandi þó selt gulleggið sitt, orkubúið, fyrir nokkrum árum? Vill hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kannski upplýsa okkur aðeins um það (Gripið fram í.) þegar hv. þingmaður talar sem ég geri ráð fyrir að hann geri? Er ekki aðeins farið að lækka í kassanum aftur hjá einu og einu sveitarfélagi á Vestfjörðum þrátt fyrir að hafa látið frá sér gulleggið? Ég hef grun um það.

Við höfum lagt til, og það liggur fyrir í frumvarpi, að það svigrúm sem menn eftir atvikum telja að sé til staðar til að lækka tekjur ríkisins, t.d. um þetta 1% í tekjuskatti á næsta ári, verði þá fært yfir til sveitarfélaganna í formi heimildar til að leggja á aukin útsvör. Það er nú einu sinni svo að 65–67% af tekjum sveitarfélaganna koma frá útsvari og það er lítið hægt að gera sem verulega munar um í fjármálum þeirra nema leyfa þeim að beita eða nýta þann tekjustofn, nema menn vilji þá færa þeim einhverja nýja eða koma til þeirra tekjum með öðrum hætti. Nærtækast er auðvitað að þau fái að efla tekjustofna sína sem þau hafa sjálf forræði yfir og betra en t.d. að færa sífellt einhverja tímabundna reddingarfjármuni inn í jöfnunarsjóð.

Við höfum einnig lagt það til, herra forseti, að álagningu fjármagnstekjuskatts verði breytt þannig að tekið verði upp frítekjumark fyrir venjulegan sparnað en prósentan hækkuð í 18 af hundraði. Það mundi gefa ríkissjóði um 3 milljarða kr. og þá peninga væri hægt að nota í mörg af þeim brýnu verkefnum sem ég nefndi í ræðu minni og ekki er unnt að verða við að því er virðist og meiri hlutinn virðist ekki ætla að gera með tillögum sínum í fjárlagafrumvarpinu og breytingartillögum við það og fjáraukalögum sem hér hafa verið til umfjöllunar.

Þannig höfum við gert grein fyrir áherslum okkar í þessum skattamálum. Við höfum viljað leita leiða til þess að bæta stöðu þeirra sem minnstan hafa kaupmáttinn og lakast standa að vígi, t.d. með því að hækka skattleysismörkin að því marki sem menn eru tilbúnir til að afsala ríkissjóði tekjum í gegnum tekjuskattskerfið. Það er einföld aðferð og hún kemur þannig við.

Þegar hæstv. fjármálaráðherra talar um jaðaráhrif í skattkerfinu þá er auðvitað ein aðferð langöflugust við að draga úr þeim og hún er sú að draga úr þeim tekjutengingum liða sem valda jaðaráhrifum, nema hæstv. ráðherra sé farinn að kalla hina beinu álagningu tekjuskatts jaðaráhrif, sem mér finnst ekki rétt málnotkun. Ég hef talið að jaðaráhrifin væru það þegar upp safnast ofan á tekjurnar sem eru skattlagðar með einhverjum tilteknum hætti, jaðaráhrif vegna þess að bótaliðir eða gjöld eru tekjutengd, svo sem eins og vaxtabætur, barnabætur eða endurgreiðsla á námslánum. Þá verða til þau illræmdu jaðaráhrif sem auðvitað fóru alveg úr böndunum á ákveðnu tímabili. Og hvenær var það nú? Það var einmitt í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks þegar gengið var mjög langt í tekjutengingum og verkið síðan fullkomnað eftir að framsóknarmenn komu til sögunnar og tekjutengdu barnabætur að fullu. Þá urðu til verstu jaðaráhrif sem nokkurn tíma hafa sést í íslenska skattkerfinu og þakka skyldi mönnum þó að þeir reyni eitthvað að draga úr þeim. Það er auðvitað hárrétt aðferð að gera það og það má segja frumvarpinu til hróss að þessu eina leyti að það er auðvitað rétt aðferð gagnvart jaðaráhrifunum að fara í þau sjálf með breytingum af því tagi sem hér eru á ferðinni í barnabótum svo langt sem það nær. En menn eiga ekki að reyna að skjóta skildi fyrir stórfelldar skattalækkanir hátekjufólks með flötum prósentulækkunum eða afnámi hátekjuskatts eins og það sé sérstaklega vegna jaðaráhrifanna sem slíkra. Það eru aðrar aðferðir nærtækari til þess.

Aðalatriðið er, herra forseti, að það er verið að breyta samfélaginu. Þetta er pólitík. Það er verið að breyta hlutaskiptunum í íslensku samfélagi. Það er verið að færa Ísland í átt frá hinum Norðurlöndunum. Við verðum fjær því en áður að geta náð máli sem norrænt velferðarsamfélag. Það fer nefnilega ekki saman að reka norrænt velferðarsamfélag og hafa ameríska skattprósentu, það fer bara ekki saman. Á það munu menn reka sig, því miður.