131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:47]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður getur ekki kvartað undan því þó maður taki skattstefnu ríkisstjórnarinnar fyrir í heild sinni. Bæði það sem er á ferðinni í þessu frumvarpi og annað sem þegar hefur verið lögfest eða stendur til að gera. Þetta er allt saman í samhengi þó breytingin, þrepin í afnámi hátekjuskattsins, hafi verið lögfest í fyrra gerist hún sömu ár. Það er einmitt á töfraárinu 2007 sem hátekjuskatturinn á að vera horfinn að fullu. Ég fór yfir það í máli mínu hvernig hann er að þrepast niður úr 7% 2003 vegna tekna ársins 2002. Ég er að ræða um breytingarnar á skattkerfinu í heild sinni. Ég er að ræða um að skattbyrðin er því miður alltaf að flytjast í vaxandi mæli yfir á herðar lágtekjufólks. Ég er að ræða um hvað gerist á móti, um gjaldtökuna, niðurskurðinn og þrengingarnar í rekstri hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga. Eigum við ekki að ræða um þetta í samhengi, hv. þingmaður?