131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:48]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Annaðhvort talar hv. þingmaður óviljandi eða viljandi þannig að hann lætur eins og hann skilji ekki um hvað málið snýst. Áætlunin og stefnan að lækka skatta er byggð á því að við vitum að þjóðfélagið er í mikilli tekjuuppsveiflu. Þess vegna gerum við ráð fyrir að lækka skattana í uppsveiflunni, vegna þess að vitað er að tekjutap ríkisins þarf ekki að vera neitt. Alls ekki. Með þessu móti erum við eingöngu að hemja vöxtinn, hemja útgjöldin og hemja tekjurnar líka. Það stendur því alls ekki til að skera nein útgjöld niður. Tekjurnar eru að vaxa. Við eigum eingöngu að passa upp á að þær vaxi ekki of mikið. Við vitum líka að þetta hefur þau áhrif að meiri vilji verður til þess að vinna þannig að við treystum því, trúum og vitum að það er rétt að tekjur Íslendinga munu aukast.