131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:50]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekkert sérstakt vandamál að Íslendingar vinni of lítið. Verkafólk á Íslandi vinnur 48,2 stundir á viku að meðaltali. Finnst hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni það ekki nóg? Ætli það sé ekki frekar vandamál að borgað er svo skammarlega lágt tímakaup að menn þurfa allir að vera í einni og hálfri til tveimur vinnum til að eiga möguleika á að framfleyta sér? Ekki er þó verið að hygla þessu fólki sérstaklega í breytingunum.

Hv. þingmaður kemur með ræðu um að það sé svo mikil tekjuuppsveifla fram undan að þetta gerist allt saman án nokkurra fórna. Ekki var það að heyra á hv. þm. í umræðum fyrir skemmstu þegar hann óskapaðist yfir kennarasamningum að þetta væri allt í hendi. Þá hafði hv. þingmaður miklar áhyggjur af því að við værum kannski að keyra út af. En ekki vegna þess hvernig ríkisstjórnin hegðar sér. Nei, það skal vera grunnskólakennurum að kenna ef hér fer allt úr böndunum í efnahagsmálum.

Auðvitað var gott að heyra hv. þingmann segja: Við erum að reyna að koma böndum á þetta og koma í veg fyrir að útgjöld hins opinbera aukist. Já, ríkið, eða hið opinbera á nefnilega ekki að fá að halda hlut sínum. Það er málið.