131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:58]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja eins og það horfir við mér að ég skil ekki hvernig í ósköpunum menn geta talað eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Hér er verið að flytja eitthvert jákvæðasta þingmál sem komið hefur fram á þessu þingi sem gengur út á að láta fólkið í landinu fá aftur sjálfsaflafé sitt í meira mæli en menn höfðu áður og hv. þingmaður er á móti því. Hann er á móti því að fólk fái sjálft að ráðstafa fé sínu. Hann vill miklu frekar halda sjálfur um buddu fólksins.

Ég verð að segja að mér finnst þessi málflutningur furðulegur og að hv. þingmaður tali um að ríkisstjórnin sé að færa fólkinu einhverjar gjafir. Auðvitað er ríkisstjórnin ekkert að færa fólki neinar gjafir. Þessi málflutningur ber þess ekki vott að hv. þingmaður beri mikla virðingu fyrir vinnandi fólki og þeim launum sem það aflar sér. (Forseti hringir.) Ríkið er að skila til baka því sem fólkið á.