131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:01]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður séum alveg sammála um að þjóðfélagið eigi að vera manneskjulegt og gott. En ég bendi hv. þingmanni á það, og á þá staðreynd verður hann að horfa, að þegar við lækkuðum tekjuskatt fyrirtækja jukust skatttekjurnar. Það er mjög líklegt að með þessari aðgerð muni hið sama gerast.

Hv. þingmaður gagnrýnir þetta frumvarp og þær efnisreglur sem fram koma í því á þeim forsendum að hér sé verið að lækka skattbyrði þeirra mest sem mest hafa launin, verið sé að færa þeim ríku meira en hinum fátæku. Það má kannski segja að auðvitað felist það í því að sá sem er með hærri laun greiðir hærri skatt en sá sem er með lægri laun, ég tala nú ekki um þá sem eru undir skattleysismörkum og greiða þar af leiðandi engan skatt. Mér heyrist hv. þingmaður vera á móti hlutfallslegum lækkunaraðgerðum.

Ef hann væri samkvæmur sjálfum sér og við værum ekki að horfa hér fram á skattalækkanir heldur skattahækkanir, mundi þá hv. þm. beita sér (Forseti hringir.) fyrir því að hver einasti skattþegn í þessu landi mundi greiða sömu aukafjárhæð til fjármálaráðherra en ekki hlutfallslega?

(Forseti (JóhS): Ég vil biðja hv. þingmenn að gæta að ræðutímanum.)