131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:26]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekkert verið að leggja til að hátekjumenn greiði ekki neitt, aldeilis ekki. Það er verið að draga úr skattaáþján þeirra. Það er verið að draga úr skattáþján sjómanna og skipstjóra og verkstjóra og annarra þeirra sem leggja hart að sér. Það er verið að hvetja fólk til að vinna.

Minn flokkur hefur staðið að því að reyna að stækka kökuna, hvetja fólk til að afla meiri tekna annaðhvort með menntun, snilli eða dugnaði, ekki endilega með lengri vinnutíma. Við viljum reyna að hvetja fólk til að vinna. Við höfum hvatt fyrirtæki til að auka hagnað. Þau hafa stóraukið hagnað þannig að tekjur ríkissjóðs til þess að greiða til góðra mála hafa stórvaxið. Þetta er stefna okkar.

Getur verið að hv. þingmaður sé á móti þessu, að hvetja fólk til að vinna? Vill hann búa til fátæktargildrur þannig að fólk verði á bótum og komist aldrei úr þeim?