131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[17:12]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra svaraði ekki — sem er svo sem sök sér — frammíkalli mínu um hvaða stjórnmálaflokkur eða hvaða aðilar hefðu tekjutengt barnabætur á Íslandi að fullu. Þá er best að ég upplýsi hæstv. ráðherra um það. Það var hæstv. ráðherra sjálfur og flokkur hans í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn á kjörtímabilinu 1990–1999. Það má því sannarlega segja að þeim standi það næst að leggja af staða til baka. En það skal bara, sögunnar vegna, vera á hreinu að þannig að aldrei í sögunni, hvorki fyrr né síðar og nánast hvergi á byggðu bóli, hefur verið gengið jafnlangt í þessum efnum og einmitt af núverandi hæstvirtri ríkisstjórn á þessum árum.

Í öðru lagi, varðandi aðhald eða niðurskurð og orðanotkun í því sambandi. Ég leyfi hæstv. forsætisráðherra algerlega að velja sjálfum nafngiftirnar á því hvort það er aðhald eða niðurskurður í fjárlagafrumvarpi fyrir í hönd farandi ár að þar skuli vanta 500 millj. kr. til að standa við samninginn við öryrkja sem ríkisstjórnin gerði rétt fyrir kosningar 2003. Hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, má algerlega ráða því hvort hann kallar þau svik aðhald eða niðurskurð. En staðreyndin er sú að það vantar þessar 500 millj. kr. inn í fjárlagafurmvarpið til að við þann samning sé staðið.

Aðhald og útgjaldastjórnun, segja þeir. Það er mikilvægt að fá það staðfest frá formanni Framsóknarflokksins í framhaldi af ræðu hæstv. fjármálaráðherra að það sé beinlínis markmið ríkisstjórnarinnar að nota þessar skattalækkanir til að draga saman umsvif hins opinbera, nota þær sem stjórntæki til að samneyslan minnki hlut sinn af verðmætasköpuninni í þjóðfélaginu. Þetta er tæki til að draga úr samneyslunni í landinu. (Forseti hringir.) Nú hafa forkólfar beggja stjórnarflokkanna staðfest það.