131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[17:14]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst það afskaplega ömurlegt að hv. þingmenn og ýmsir aðrir skuli halda því fram að ákvörðun ríkisstjórnarinnar, að verja 1 milljarði til aukningar á örorkubótum til að hækka örorkubætur yngstu öryrkjanna um allt að helming, séu svik. Það liggur alveg ljóst fyrir hvað ríkisstjórnin samþykkti í þessu efni og það er afskaplega leitt til þess að vita að slíkur málflutningur skuli vera uppi. Það er ekki þar með sagt að menn hafi gert alla hluti sem menn vildu hafa gert í þessum efnum frekar en öðrum, en það hefur fullkomlega verið staðið við það sem sagt var í þessum efnum, hv. þingmaður.

Hvað varðar barnabæturnar liggur það alveg ljóst fyrir að 1988 þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp var skerðing af tekjuskattsstofni með fyrsta barni 7%, af öðru barni 13%, af þriðja barni 18% og með hverju barni umfram þrjú 4% þar til viðbótar. Þessu var ekki breytt fyrr en 1995 þegar byrjað var að draga úr þessari skerðingu og lýkur svo með því sem hér er lagt fram að fara niður í 8% með þriðja barni í stað 18% og ekkert með börnum umfram það, og með fyrsta barni í 2% í stað 7% og með öðru barni að vísu 6% og var 6% í upphafi. Þetta er saga barnabótanna, hv. þingmaður.