131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[17:16]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er bara hálf sagan. Hæstv. forsætisráðherra veit betur en þetta. Hann verður að gera greinarmun á þeim hluta barnabótanna sem var tekjutengdur og hinum sem var það ekki. Tekjutengdi hlutinn sem vissulega var með mjög skörpum skerðingarmörkum var kallaður barnabótaauki og var álag ofan á uppistöðuna sem voru ótekjutengdar barnabætur. Og það er síðan núverandi ríkisstjórn eða sömu flokka sem tekjutengir þetta að fullu og að sjálfsögðu gjörbreytir það eðli málsins þegar ótekjutengdi hlutinn hverfur og verður tekjutengdur að fullu, svo menn átti sig á samhengi hlutanna.

Þetta eru staðreyndir málsins og ég veit að hæstv. ráðherra veit þetta. Það er að vísu rétt að gengið var nokkuð grimmilega fram í því að færa til yfir í tekjutengda hlutann, sérstaklega hygg ég að það hafi verið í tíð ríkisstjórnarinnar 1991–1995. En svona er þetta nú að það er síðan ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem tekjutengir barnabæturnar að fullu á Íslandi, 100%. Þannig er það og hún er svo að reyna að snúa ofan af því núna og þó fyrr hefði verið.

Staðreyndin er sú, frú forseti, að það er sérstaklega ómerkilegt af ríkisstjórninni og Framsóknarflokknum alveg sérstaklega að vanefna svona samninginn við öryrkja frá því fyrir kosningar 2003 vegna þess að ríkisstjórnin fékk auðvitað prik. Allir sanngjarnir menn fögnuðu samkomulaginu um að bæta sérstaklega hag yngstu öryrkjanna og ríkisstjórnin komst í skjól eftir illdeilur sínar við samtök öryrkja og málaferli með þessum gjörningi. En að standa svo ekki við hann er alveg sérstaklega lágkúrulegt, og lesi menn heilsíðuauglýsingar í dagblöðunum í dag þar sem orðréttar tilvitnanir í heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins (Forseti hringir.) sanna að hann var þeirrar skoðunar að það ætti eftir að efna samninginn að einum þriðja hluta.