131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[17:57]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Reykv. s. kom víða við í ræðu sinni. Ég verð að takmarka andsvarið við afmarkaðan þátt, einkum við það sem mér fannst ekki koma nægilega skýrt fram og varðar afstöðu hv. þm. til þeirrar meginstefnu í frumvarpinu að lækka tekjuskattshlutfallið. Ég skildi orð hv. þm. með þeim hætti að annars vegar væri ástæða til að minnka skattbyrði á lægst launuðu hópana og eins sagði hv. þm. að löngu væri kominn tími til að draga úr skattbyrði millitekjuhópanna.

Þegar ákvörðun er tekin um að lækka skatthlutfall er það auðvitað svo að í krónutölu er það hæsta upphæðin sem kemur í hlut þeirra sem borga hæstu skattana og minna hjá þeim sem borga minna í skatt. Má skilja ummæli hv. þm. um lágtekjuhópana og millitekjuhópana þannig að hv. þm. mæli með því að tekið sé upp fjölþrepaskattkerfi eins og þekkist víða í löndunum í kringum okkur þar sem þeir sem hærri hafa tekjurnar borga ekki einungis hærri upphæðir í krónum talið heldur einnig hærra hlutfall af tekjum sínum í skatt?