131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:02]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Ég mælti með því, virðulegi forseti, að breyta um kúrs og hætta að skattleggja fólk með tekjur undir 100 þús. kr. sem borgar nú í skatta 2 milljarða kr. en hækka lítillega fjármagnstekjuskattinn upp í 15% sem gæfi okkur 2 milljarða kr. í tekjur, jafnvel þótt við hefðum frítekjumark, upp á 100 þús. kr. hjá einstaklingum og 200 þús. kr. hjá hjónum. Er það ekki sanngjarnt og eðlilegt að hætta að skattleggja einstaklingana með tekjur upp á 100 þús. kr. og skoða sameiginlega hvaða leið við getum fundið til þess en skattleggja þess í stað þá ríkustu, þá sem mest hafa, þá sem stjórnarflokkarnir færa enn eina ferðina mest með skattalagabreytingum.

Varðandi barnabæturnar þá eru þær svo tekjutengdar að þær eru engar barnabætur. Þær eru bara láglaunabætur. Við í Samfylkingunni viljum hugsa um fólk með meðaltekjur og fara þá leið sem farin var t.d. árið 1995. Þá voru barnabæturnar ekki jafntekjutengdar og þær eru núna. Í raun er það svo, þótt ég sé kannski ekki sérstaklega að tala fyrir því, að Ísland er eitt af þremur löndum innan OECD sem tekjutengir barnabætur. Barnabætur eru yfirleitt ótekjutengdar og við eigum a.m.k. að sjá sóma okkar í því að hafa þær ekki bara sem láglaunabætur. Það voru einungis 11% einstæðra foreldra, þegar ég skoðaði þetta síðast, sem fá barnabæturnar og 3% hjóna. Eigum við ekki að lyfta þessu örlítið upp þannig að við séum í raun að tala um barnabætur en ekki láglaunabætur, eins og þær hafa þróast í tíð núverandi ríkisstjórnar.