131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:04]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í mínu kjördæmi, sem er sama kjördæmi og kjördæmi hv. þingmanns, varð ég mjög var við það, sem og víða um land, að venjulegir launamenn kvarta mikið undan sköttum. Þeir kvarta mikið undan alls konar tekjutengdum bótum, vaxtabótum, húsaleigubótum, barnabótum, greiðslum til LÍN o.s.frv. Getur verið að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sé á móti því að lækka álögur á þetta fólk?

Ég vil benda á að konur eru í auknum mæli að hasla sér völl á vinnumarkaði. Þær sækja til hærri launa. Getur verið að hv. þingmaður vilji ekki gera þeim það léttara með því að þær þurfi ekki að borga mikið af tekjuaukanum í skatta og niðurfellingu á bótum?

Hv. þingmaður nefndi lítið eignarskattinn. Hún nefndi ekki að hann lendir oft og tíðum á eftirlifandi maka, sem iðulega og oftast nær er kona, á ekkjulífeyri. Þetta eru konur sem búa í óskiptu búi með stórar eignir sem gefa engan arð, með gamla innbúið sitt. Þær vilja treglega losa sig við það og spara ríkinu mikla peninga meðan þær búa einar í íbúð sinni. En þær hafa hingað til þurft að borga eignarskatt. Getur það verið að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vilji ekki fella niður eignarskatt á þessar konur?