131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:07]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig að ég hafi gert hv. þingmanni upp skoðanir þegar ég sagði að hún væri á móti þessum tillögum. Hún er sem sagt fylgjandi þeim, eða hvað? Hún er sem sagt fylgjandi þessu frumvarpi um að lækka skatta á vinnandi fólki, lækka skatta kvenna sem vilja afla sér meiri tekna (JóhS: Ég frábið mér svona útúrsnúninga.) og lækka eignarskatta á ekkjur. (HHj: Hvaða útúrsnúningar eru þetta?) Hún sagði að ég væri að gera sér upp skoðanir.

Varðandi vaxtabæturnar hafa vextir lækkað mjög umtalsvert. Hv. þingmaður gat um að sumt fólk byggði á greiðslumati sem gengi út frá því að það borgaði 6% vexti, 5,1% vexti sem væru fastir. En ég bendi á að slíkt greiðslumat er gamalt og í því er gengið út frá miklu lægri launum en greidd eru í dag. Það virðist vera orðið eitt aðalvandamál íslensks hagkerfis hvað laun hafa hækkað mikið. Fólk á mikið auðveldara með að borga lánin núna en þegar greiðslumatið var gert. Það er því réttlátt að minnka vaxtabæturnar, sem auk þess eru hvati til skulda og mjög óeðlilegur hvati í þjóðfélagi sem vantar sparnað.