131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:37]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hún var að mörgu leyti skemmtileg, ræðan sem hv. þm. Birgir Ármannsson flutti áðan. Hann sagði í upphafi máls síns að frumvarpið sem hér væri lagt fram sýndi lykilatriði í stefnu stjórnarflokkanna. Það er rétt að halda því til haga að lykilatriðið í þessu frumvarpi er að þeir sem hafa núna mest fyrir munu fá þegar þetta frumvarp verður orðið að lögum mest allra.

Hv. þingmaður kvartaði undan því að þingmenn Samfylkingar hefðu spurt á hausti sem leið um skattalækkanir ríkisstjórnar og bar sig hálfilla yfir því að við gengjum eftir efndum á þeim kosningaloforðum. Það er í raun ekki skrýtið að við veltum aðeins fyrir okkur hvað gekk á í kosningabaráttunni í skattaboðum Sjálfstæðisflokksins. Þeir töluðu ákaflega óljóst um skattalækkanir lengi framan af. Þegar eftir var gengið kom formaður flokksins á fundi og sagði: Á fyrsta fundi þings þegar það kemur saman munum við leggja fram lagafrumvarp sem segir hvað við ætlum að lækka skatta mikið og hvenær við ætlum að gera það. Það er alveg 100% öruggt, klappað í stein.

Síðan er liðið heilt ár og ekki undarlegt að menn spyrji: Hvað dvaldi orminn langa? Af hverju kemur þessi bandormur fram núna, ári síðar en kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins sögðu á sínum tíma? Eitt er að tala um flokka sem eru með kosningaloforð og hafa síðan ekki komist að í ríkisstjórn til að efna þau. (Gripið fram í.) Hitt er að tala um flokka sem komust að í ríkisstjórn en gleymdu kosningaloforðum sínum í heilt ár þangað til þeir komu núna og eru með það sem þeir lofuðu í kosningunum. Reyndar eru þetta ekki þær skattalækkanir sem þeir lofuðu þá, eins og hv. þm. sjálfur fór vel yfir í ræðu sinni.