131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:39]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson má ekki misskilja mig svo að ég hafi verið að kveinka mér undan málflutningi þingmanna Samfylkingarinnar á síðasta ári. Við sjálfstæðismenn létum þetta auðvitað yfir okkur ganga vegna þess að við vissum að við ætluðum að halda kúrs og koma fram með þau stefnumál sem við lögðum áherslu á á kjörtímabilinu.

Ég minni á að þegar gengið var til kosninga tókum við alltaf fram að skattalækkunaráformin sem við höfðum lagt áherslu á ættu að koma til framkvæmda á kjörtímabilinu. Við sögðum aldrei að það ætti að gerast á fyrsta ári. Það er reyndar rétt, eins og hv. þm. nefndi, að við höfðum í hyggju að leggja fram ítarlega tímasetta áætlun strax í upphafi kjörtímabils. Við gerðum það með óljósari hætti en þó allskýrt, bæði í stjórnarsáttmála og í langtímaáætlunum um ríkisfjármál sem kynntar voru síðasta haust. Menn gátu lesið í það nokkuð skýrt hver áformin voru. Þau hafa nú komið fram í frumvarpsformi þannig að ég held að hv. þingmaður geti ekki kvartað yfir því að við höfum leynt því hvaða áform við höfðum. Það var alveg kristalskýrt þó að það yrði ekki í formi þeirrar yfirlýsingar sem við höfðum í hyggju fyrir kosningar að leggja fram.

Menn þekkja líka ástæðuna fyrir því að það var ekki gert. Menn minnast þess að á síðasta hausti þegar þessi mál voru til umræðu var um það samstaða innan ríkisstjórnarinnar að bíða með nánari útfærslu skattalækkunaráformanna þangað til línur yrðu farnar að skýrast í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Í kjölfar þess að þær línur urðu skýrar síðasta vor tóku líka þessar tillögur á sig endanlega mynd. Ég held að hv. þm. Jón Gunnarsson ætti ekki að þurfa að hafa áhyggjur af þessum þætti. Við vorum með skýra stefnu og við erum að hrinda henni í framkvæmd.