131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[19:04]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við höldum áfram að ræða þetta gleðilega frumvarp. Það er svo ótrúlegt, ég er varla búinn að ná því enn að til standi að fella niður eignarskattinn en sú tilfinning kemur örugglega fljótlega yfir mig.

Ég skil ekkert í almennri ólund þingmanna við þessu góða frumvarpi. Ég skil reyndar Vinstri græna af því að þeir vilja helst taka allar tekjur af fólki og deila þeim út aftur. Það get ég vel skilið að aðalmarkmið skattalaganna sé í þeirra huga að jafna tekjur en ekki að afla tekna fyrir ríkissjóð.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann varðandi konur. Segjum að kona sé atvinnulaus og með tvö börn. Þá kemur upp sú staða að það borgar sig hreinlega ekki fyrir hana að vinna.

Er þetta eitthvað sem við viljum konum, að þær séu bundnar vegna þess að bætur skerðast og alls konar hlutir skerðast við það að fara að afla sér tekna. Viljum við búa til svona fátæktargildrur? Er það virkilega þannig?

Svo vil ég líka nefna að konur eru í síauknum mæli að afla sér menntunar sem er mjög gott. En væntanlega eru konur að afla sér menntunar til þess að fá hærri tekjur. Hvað gerist þegar þær fara að vinna og komast að því að öll menntunin er fyrir bí vegna þess að það koma endurgreiðslur af námsláni 4,75%, sem ríkisstjórnin ætlar reyndar að breyta niður í 3,75%. Síðan koma skerðingar á barnabótum, skerðingar á vaxtabótum eða húsaleigubótum. Er það þetta sem hv. þingmaður vill konum?

Er ekki gáfulegra að verðlauna fólk fyrir að afla sér hærri tekna, t.d. með menntun, með snilld eða með dugnaði? Ég er ekki að tala um lengri vinnutíma, hann er allt of langur. Nei, ég er að tala um að fólk afli sér hærri tekna, t.d. með menntun. Vill hv. þingmaður virkilega koma í bakið á þeim konum sem hafa verið að gera það með því að leggjast gegn skattalækkun?