131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[19:09]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni um að það sé önugt hvernig bætur skerðast eða hvernig fólki er, eins og hann orðar það, refsað fyrir að sýna dugnað eða bæta við sig menntun. En ég er ekki sammála hv. þingmanni um að það eigi eingöngu við um konur, nema þá og því aðeins að það sé vegna þess að staða kvenna sé almennt svo slæm í þessu samfélagi.

Hverju er það um að kenna? Kannski stefnu ríkisstjórnarinnar. Kannski vegna þess að á undanförnum árum höfum við ekki borið gæfu til að leiðrétta þann mun sem er á stöðu kvenna og karla í samfélaginu. Kannski ættum við að taka á því, það er kannski þar sem við ættum virkilega að taka sameiginlega á hér í þinginu. Þá mundum við hv. þm. Pétur H. Blöndal eflaust geta staðið saman.

Ég gagnrýni þetta frumvarp fyrir að hafa ekki í sér fólginn kafla um samþættingu kynjasjónarmiða. Ég hefði talið feng að því að slíkt væri til staðar þar. Það er allt of sjaldan sem við leyfum okkur að tala um þau mál, þ.e. samþættinguna og samþættingarhugsjónina. (Gripið fram í.) Já, já, nú erum við kannski að reyna það.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur áhyggjur af því að tekjutengingarnar skerði rétt fólks til að afla sér frekari tekna. Ég get verið sammála honum í því, það er auðvitað ekki gott. En það er heldur ekki gott að við skulum vera með fullt af öryrkjum á örorkubótum sem hafa samt sem áður starfsorku. Samfélagið er orðið þannig að það er ekki pláss fyrir fólk sem hefur að einhverju leyti skerta starfsorku. Ég mundi gjarnan vilja sjá að við værum að ræða hér mál af því tagi að búa til atvinnutækifæri fyrir fólk með skerta starfsorku svo að það þyrfti ekki að sitja heima á bótum.

Ég veit því að við eigum hér ákveðna snertifleti, ég og hv. þingmaður, þó að við séum ósammála í grunninn, annað okkar til hægri og hitt til vinstri.