131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[20:24]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Framsóknarflokkurinn hefur ekkert sett sig sérstaklega upp á móti því að lækka matarskattinn, alls ekki. Ég bið hv. þingmann að finna þess stað í málflutningi framsóknarmanna á Alþingi að við höfum lagst gegn því. Verið er að skoða þessi mál á vettvangi ríkisstjórnarinnar og við höfum ekkert lokað á neitt í þeim efnum.

En af því að hv. þm. Jón Gunnarsson vildi ekki kannast við það áðan að Samfylkingin hefði lofað skattalækkunum fyrir síðustu alþingiskosningar ætla ég að fara með þá rullu kosningaloforða sem Samfylkingin talaði fyrir fyrir síðustu alþingiskosningar.

Það var í fyrsta lagi að lækka tekjuskattinn, hækka skattleysismörkin, lækka virðisaukaskatt, hækka barnabætur, lækka þungaskatt, afnema stimpilgjöld, lækka endurgreiðslubyrði og jafna námskostnað svo eitthvað sé nefnt. Þetta er mjög fallegt. (Gripið fram í: Svo forgangsröðum við.) Svo forgangsröðuðum við, segir hv. formaður Samfylkingarinnar, sem sagði að það væri jafnvel ekki rétt að fara í ákveðnar aðgerðir svo sem að lækka tekjuskattsprósentuna eins og ríkisstjórnin hefur ætlað sér. Samfylkingin talaði svona fyrir einu og hálfu ári. Stefnan er orðin allt önnur í dag. Þeir eru ekki sammála ríkisstjórninni að við lækkum tekjuskattsprósentuna. Haninn er ekki lengi að snúast í þessum efnum.