131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[20:32]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef reynt að svara þessari spurningu í tvígang. Því miður virðast hv. þingmenn Samfylkingarinnar ekki vilja heyra það sem ég segi í þeim efnum.

Ég ætla að benda hv. formanni Samfylkingarinnar á að það eru trúlega til flokksþingssamþykktir fyrir því að stefna beri að því að lækka matarskattinn. Ég þykist nokkurn veginn viss um það, ég ætla ekki að fullyrða algjörlega um það.

En stjórnmálamenn vita, ábyrgir stjórnmálamenn, m.a. hv. formaður Samfylkingar reynir að skapa af sjálfum sér þá mynd, að við náum aldrei öllum málum í gegn. Við höfum ákveðið svigrúm til skattalækkana. Það er óumdeilt. Það er verið að skoða hvort við höfum meira svigrúm, m.a. til að lækka mögulega matarskattinn en sú vinna er í gangi innan ríkisstjórnarinnar.

Mér virðist sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar vilji helst ana að öllum þessum tillögum greinilega. Ég las þær upp, þær eru tvær, fjórar, sex, átta skattalækkunartillögur sem þeir lofuðu fyrir síðustu kosningar, átta skattalækkunartillögur. Trúlega hefðu þeir viljað láta verða af þeim skattalækkunum strax og þeir settust í ríkisstjórn. Það hefði átt að gerast strax en ekki að skoða málin eins og hér er gert af hálfu framsóknarmanna og sjálfstæðismanna. Ef menn eru að skoða og athuga sinn gang þá eru þeir á móti hlutum. Það er dálítið sérkennilegt.

Ég bið hv. þm. Össur Skarphéðinsson um að útskýra aðeins betur fyrir mér hvernig málin eru innan Samfylkingarinnar, þ.e. að ef menn vilji hugsa málin og velta fyrir sér kostum og göllum ákveðinna leiða sem komi til greina að fara og skoða svigrúm sem fyrir er þá séu menn á móti málinu. Þetta er mjög sérkennilegt.