131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[20:35]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. formaður Samfylkingarinnar hafi nú glatað því litla sem hann hefur átt af trausti og trúnaði sé málflutningurinn (Gripið fram í.) sem hann viðhafði hér borinn saman við það sem hann sagði fyrr í umræðunni, um að við yrðum að fara varlega í skattalækkanir og taka mið af þensluhvetjandi aðgerðum.

Er það ekki þensluhvetjandi aðgerð að lækka matarverðið í landinu? Er það ekki þensluhvetjandi? (ÖS: Hefur ekki þingmaðurinn fylgst með umræðunni?) Er það ekki þensluhvetjandi að lækka skatta um allt að 30 milljarða kr. eins og Samfylkingin hefur lagt til? Ég heyrði ekki betur en að hv. formaður Samfylkingarinnar væri til í að taka matarskattinn svona inn og bæta ofan á skattalækkunartillögurnar þannig að Samfylkingin gæti staðið við sín kosningaloforð, um 30 milljarða kr. skattalækkanir, allar átta skattalækkanirnar sem þeir lofuðu fyrir kosningar. En slíkt gera bara ábyrgir stjórnmálamenn ekki. Þeir hugsa um stöðugleikann í landinu.