131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[20:40]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að í landinu gæti verið prýðilegur hagvöxtur og á traustari forsendum en hann er í dag ef hér væri rekin önnur atvinnustefna, ef hlúð væri að nýsköpun í atvinnulífinu, hinu almenna atvinnulífi og iðnaðinum.

Hvað er að gerast vegna hinna neikvæðu ruðningsáhrifa stóriðjufjárfestinganna? Iðnaðurinn er að fara úr landi. Hann er sannarlega að fara úr landi. Hefur hv. þingmaður ekki heyrt hvað talsmenn nokkurra af stærstu samkeppnisiðnaðarfyrirtækjunum eru að segja þessa dagana? Aðstæðurnar hér eru svo hríðversnandi að menn hugsa sig vandlega um áður en þeir auka starfsemina hér heima og skoða möguleikana á því að færa hana til útlanda.

Varðandi fjármagnstekjuskattinn aftur þá er reyndar fjármagnið að fara úr landi og þarf ekki frumvarp okkar Vinstri grænna til. Flestar fjárfestingar íslenskra stóraðila eru núna erlendis, því miður. Það er umhugsunarefni ef við eigum að byggja á erlendri stórfjárfestingu í álverum til að halda uppi atvinnustigi og hagvexti á sama tíma og okkar fyrirtæki fara öll út og freista gæfunnar þar.

En skattprósenturnar eru þar, eins og ég fór yfir með hv. þingmanni, miklu hærri en hér, jafnvel (Forseti hringir.) þótt við færum í þessi 18%.