131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[20:56]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ýmsir fleiri þingmenn stjórnarliðsins hér við umræðuna í dag reynir hv. þingmaður að gera mikið úr því að eignarskattar séu einkum skattar á tekjulítið fólk og þess vegna beri að leggja eignarskattana af. Þessi málflutningur er fráleitur og full ástæða er til að taka hann upp til sérstakrar umræðu í andsvörum því að auðvitað er eignarskattur stilltur af eins og stjórnvöldum líkar best á hverjum tíma. Vilji menn að menn njóti skattfrelsis undir ákveðnum eignarmörkum, til að mynda sem samsvarar venjulegri íbúðareign, þá geta þeir auðvitað hæglega gert það en skattlagt samt þá sem eru stóreignamenn og sitja hér á tugum, hundruðum og jafnvel þúsundum milljóna króna í eignum.

Meginatriðið er auðvitað það að hér hafa eignir verið skattlagðar með þeim hætti að hin mikla hlutabréfaeign hefur aðeins verið skattlögð á nafnvirði en ekki á markaðsvirði. Því hafa þeir sem hafa hagnast verulega á verðbréfabraski hér á síðustu árum komist undan því að borga eignarskatt. Hins vegar hefur hann vissulega lent með of miklum þunga á talsverðum hópi eldra fólks vegna þess að viðmiðunarmörkunum hefur af hálfu ríkisstjórnarinnar verið hagað þannig að skatturinn hefur þannig komið niður. Það er ekki réttlæting fyrir því að afnema skatta á eignir manna. Það getur verið full ástæða til þess að þeir sem eiga miklar eignir og hafa raunverulega breiðu bökin eigi að bera kostnaðinn en það eigi ekki að taka peningana úr vaxtabótunum hjá unga skuldsetta fjölskyldufólkinu til þess að fjármagna afnám eignarskatta þeirra sem vissulega geta og eiga að standa hér undir velferðarkerfinu umfram aðra.